Erlent

Konur til sölu í stórmarkaði

Óli Tynes skrifar
Útstilling verslunarinnar með konur.
Útstilling verslunarinnar með konur.

Gestum í stórmarkaði í Tel Aviv í Ísrael brá í brún þegar þeir komu að verslun sem hét Konur til sölu. Fyrir framan verslunina stóðu ungar konur með verðmiða á sér. Á verðmiðanum var sagt frá aldri þeirra, þyngd, hæð og hvaðan þær væru upprunnar. Þessi uppákoma var liður í baráttu réttindasamtaka fyrir því að vændiskaup verði gerð saknæm og að kaupendurnir verði handteknir og þeim refsað.

Hugmyndin er sótt í smiðju Svía sem fyrstir fóru þessa leið. Hún hefur einnig verið lögleidd á Íslandi. Ori Keidar einn aðstandenda herferðarinnar segir að á undanförnum áratug hafi yfir 10 þúsund konur verið fluttar inn til kynlífsþrælkunar í Ísrael. Þessar konur séu lokaðar inni, þær barðar, sveltar og þeim nauðgað. Þær séu neyddar til þess að taka á móti 15-30 mönnum á dag alla dags ársins.

Fyrir þrem árum hóf ísraelska lögreglan herferð gegn mansali og tókst að draga verulega úr því. Sömuleiðis herti herinn eftirlit á landamærunum að Egyptalandi, en það er þaðan sem flestar konurnar eru fluttar til Ísraels.

Keidar segir að löggjöf gegn vændiskaupum myndi enn þrengja að melludólgum og gera þeim ólíft í Ísrael.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×