Erlent

ESB sendir landamæraverði til Grikklands

Óli Tynes skrifar
Varðstöð á landamærum Grikklands og Tyrklands.
Varðstöð á landamærum Grikklands og Tyrklands.

Grikkir eiga í mestu vandræðum með gríðarlegan straum flóttamanna á landamærum sínum að Tyrklandi. Á öðrum ársfjórðingi þessa árs sexfaldaðist þessi straumur. Tugþúsundir flóttamanna bíða þess nú að mál þeirra verði tekin fyrir. Margir flóttamannanna segjast vera frá Afganistan. Og margir þeirra eru að reyna að komast í gegnum Grikkland til annarra ríkja Evrópusambandsins.

Sambandið segir að ekkert sambandsríki verði fyrir öðru eins álagi. Tölur sýni að 90 prósent þeirra sem reyni að komast innfyrir landamæri þess með ólöglegum hætti reyni að komast í gegnum Grikkland.

Því sé sanngjarnt að rétta Grikkjum hjálparhönd. Árið 2007 var sett á fót hraðsveit til landamæragæslu innan Evrópusambandsins til þess að taka á svona aðstæðum. Þetta er í fyrsta skipti sem sú sveit er virkjuð.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ráðlagt að aðrar Evrópuþjóðir hætti að endursenda flóttamenn til Grikklands. Álagið sé svo mikið að móttökustöðvar þar í landi geti ekki sinnt þeim svo vel sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×