Erlent

Búast má við fleiri aftökum

Fjölmenn mótmæli brutust út á síðasta ári og hafa blossað upp af og til síðan.
nordicphotos/AFP
Fjölmenn mótmæli brutust út á síðasta ári og hafa blossað upp af og til síðan. nordicphotos/AFP
„Ef við sýnum veikleika nú þá verður framtíðin verri,“ sagði Ahmed Jannati, einn af harðlínuklerkunum í Íran við föstudagsbænir í gær. „Það er ekkert rúm fyrir íslamska miskunnsemi.“

Jannati er áhrifamikill í landinu og flytur oft aðalpredikun við bænahald á föstudögum, sem eru helgidagar í viku múslima. Ummæli hans í gær þykja ótvíræð vísbending um að fleiri stjórnarandstæðingar verði teknir af lífi á næstunni.

Tveir menn voru teknir af lífi á fimmtudag, en þeir voru báðir handteknir í mótmælum sem fram fóru í kjölfar umdeildra forsetakosninga síðasta sumar. Fjölmenn mótmæli brutust út í kjölfar kosninganna.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa fordæmt aftökurnar á fimmtudag og segja réttarhöldin yfir þeim ekki hafa uppfyllt lágmarkskröfur um réttláta málsmeðferð.

„Aftökurnar eru þær fyrstu svo vitað sé sem tengjast mótmælunum um allt landið í kjölfar kosninganna,“ segir í yfirlýsingu samtakanna, sem óttast að fleiri mótmælendur verði teknir af lífi. „Að minnsta kosti níu aðrir eru á dauðadeild í Íran eftir álíka sýndarréttarhöld.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×