Viðskipti innlent

SA: Hópur fyrirtækja á leið í þrot vegna kreppunnar

Vilhjálmur undirstrikar jafnframt að ef eignir fyrirtækja eru seldar með miklum afföllum raski það samkeppnisstöðu þeirra sem haldi áfram rekstri á sama markaði.
Vilhjálmur undirstrikar jafnframt að ef eignir fyrirtækja eru seldar með miklum afföllum raski það samkeppnisstöðu þeirra sem haldi áfram rekstri á sama markaði.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsis (SA) segir að samkvæmt upplýsingum frá bönkunum muni hópur fyrirtækja fara í þrot vegna kreppunnar. Framundan sé heilmikil endurskipulagning í atvinnulífinu sem ljúki vonandi að mestu á næstu 12 mánuðum. Vilhjálmur segir stöðu fyrirtækja vera mismunandi en erlend lán valdi mörgum þeirra vandræðum.

Rætt var við Vilhjálm í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í kjölfar frétta um að BM Vallá var úrskurðað gjaldþrota í byrjun vikunnar eftir áratuga farsælan rekstur. Vilhjálmur segir afar dapurlegt að svona hafi farið fyrir fyrirtækinu sem hafi verið rekið af miklum metnaði í gegnum tíðina. Bylgjuviðtalið er birt á vefsíðu SA.

„Sum fyrirtæki voru nýbúin að fjárfesta mikið og voru skuldsett út af því, önnur fyrirtæki voru hóflega skuldsett en með lánin í erlendum gjaldmiðlum og það hefur þess vegna komið niður á þeim. En svo eru að sjálfsögðu til fyrirtæki sem eru skuldlítil og munu komast í gegnum kreppuna," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir eðlilegt að íslensk fyrirtæki hafi tekið erlend lán þar sem vaxtamunur á milli lána í krónum og erlendra lána hafi verið svo mikill. Enginn sem hafi tekið erlend lán á sínum tíma reiknað með því í sínum villtustu útreikningum að gengi krónunnar myndi falla eins mikið og það gerði með alvarlegum afleiðingum.

Varðandi endurskipulagingu fyrirtækja segir Vilhjálmur að hafa verði í huga hvort rekstur þeirra er lífvænlegur og skili tekjum upp í skuldir. Spyrja verði hvort hagstætt sé að setja slík fyrirtæki í þrot. „Við þurfum að átta okkur á því að gjaldþrot hefur í för með sér mikið verðmætatap kröfuhafa, sérstaklega ef eignir fara á brunaútsölu."

Vilhjálmur undirstrikar jafnframt að ef eignir fyrirtækja eru seldar með miklum afföllum raski það samkeppnisstöðu þeirra sem haldi áfram rekstri á sama markaði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×