Erlent

Norsk skipafélög vilja vopnaða verði um borð

Óli Tynes skrifar
Sjóræningjabátar við skipshlið.
Sjóræningjabátar við skipshlið.

Æ fleiri norsk skipafélög vilja fá vopnaða verði um borð í skip sín til þess að verjast árásum sjóræningja. Mörg norsk skip hafa orðið fyrir árásum á Adenflóa undan ströndum Sómalíu. Í nokkrum tilfellum hefur sjóræningjunum tekist ætlunarverk sitt.

Talsmaður Samtaka kaupskipaútgerða segir að fullur skilningur sé á þessum óskum. Hinsvegar óttist menn að þetta kynni að leiða til harðari ofbeldisverka. Skotbardagar gætu orðið skæðir og ógnað öryggi áhafnarinnar.

90 prósent af varningi um Adenflóa

Samkvæmt norskum lögum geta skipstjórar sótt um að hafa vopn um borð til sjálfsvarnar. Það er hinsvegar ekki heimilt að ráða sérstaklega vopnaða verði. Það breytist þó með nýjum lögum sem verið er að fjalla um.

Þarna er mikið í húfi. Níutíu prósent af öllum varningi milli Asíu og Evrópu fer um Adenflóa. Það sem af er þessu ári hefur verið ráðist á 90 skip. Af þeim hafa 45 verið hertekin.

Á síðasta ári var ráðist á 197 skip og 52 þeirra voru hertekin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×