Erlent

Reyna áfram að hafa hendur í hári Roman Polanski

Bandarísk stjórnvöld hafa ekki gefist upp við að hafa hendur í hári leikstjórans Roman Polanski þrátt fyrir að Svisslendingar hafi hafnað framsalsbeiðni þeirra.

Philip Crowley talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins segir að barátta þeirra fyrir réttlæti haldi áfram og að lögfræðingar ráðuneytisins kanni nú alla þá möguleika sem til staðar eru til að koma Polanski fyrir rétt í Los Angeles.

Polanski játaði árið 1977 að hafa átt samræði við 13 ára gamla stúlku en flúði síðan áður en dómur féll og hefur aldrei komið til Bandaríkjanna síðan.

Stúlkan sem hér um ræðir, Samantha Geimer, er lítt hrifin af þessu brölti utanríkisráðuneytisins og vill að Polanski verði látinn í friði. Hún furðar sig á því hve bandarísk dómsyfirvöld eru upptekin af þessu máli.

Samantha segir í samtali við Los Angeles Times að Polanski sé orðinn 76 ára gamal öldungur og engin hætta stafi f honum.

Samantha reyndi síðastliðinn vetur að fá saksóknarann í Los Angeles til að láta málið falla niður en tókst ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×