Erlent

Fyrrverandi ráðherra Saddams vill Bandaríkjamenn áfram

Óli Tynes skrifar
Tariq Aziz með Saddam Hussein.
Tariq Aziz með Saddam Hussein.

Tariq Aziz fyrrverandi utanríkisráðherra Saddams Hussein segir að Bandaríkjamenn skilji Írak eftir hjá úlfunum þegar þeir draga herlið sitt frá landinu.

Tariq Aziz situr í fangelsi í Bagdad. Hann hefur nú veitt breska blaðinu Guardian fyrsta viðtal sitt frá því Saddam var steypt af stóli.

Hann segir meðal annars að allir Írakar séu fórnarlömb Bandaríkjamanna og Breta, þeir hafi drepið landið á svo margan hátt.

Gereyðingarvopn áttu að ógna Íran

Utanríkisráðherrann fyrrverandi segir að Saddam hafi viljað halda mönnum í óvissu um gereyðingarvopn Íraks.

Það hafi þó ekki verið til þess að setja sig upp á móti Bandaríkjamönnum og Bretum heldur til þess að halda Írönum í skefjum.

„Íranar höfðu herjað á okkur í átta ár þannig að við Írakar áttum rétt á því að ógna þeim," segir Aziz.

Það voru raunar Írakar sem réðust á Íran. Og fengu góðan stuðning frá Bandaríkjunum í því stríði.

Skriðdrekar fyrir aftan hann

Tarik Aziz var andlit írönsku ríkisstjórnarinnar vikurnar fyrir innrásina enda var Saddam í felum.

Hann var jafnan glaðbeittur á fundum sínum með fréttamönnum og ekki í nokkrum vafa um að Írakar myndu vinna stríðið.

Eftirminnilegt er að á einum síðasta fundi sínum með fréttamönnum, utan dyra, var hann að segja þeim að íraski herinn væri að berja hart á bandamönnum.

Í baksýn mátti sjá bandaríska skriðdreka sem voru að keyra inn í Bagdad.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×