Erlent

Kínverjar refsa Norðmönnum

Óli Tynes skrifar
Frá Sjanghæ.
Frá Sjanghæ. Mynd/AP

Kínverjar hafa aflýst fundi með sjávarútvegsráðherra Noregs sem átti að halda á miðvikudag. Lisbeth Berg-Hansen ráðherra er nú í Sjanghæ  til þess að heimsækja norska skálann á heimssýningunni sem þar stendur yfir. Kínverjar eru Norðmönnum mjög reiðir fyrir að veita andófsmanninum Liu Xiabo friðarverðlaun Nóbels og er afboðun fundarins með sjávarútvegsráðherranum rakin til þess.

Sendiherra Noregs í Peking var kallaður inn á teppið og skammaður. Og sendiherra Kína í Noregi sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að Liu Xiabo væri glæpamaður sem hefði brotið kínversk lög og sæti því í fangelsi.

Kínverjar gengu svo langt að segja að þessi gjörningur muni skaða mjög samskipti landanna. Og þar er ekkert smáræði í húfi. Fríverslunarsamningur milli landanna er langt á veg kominn. Nú er ekki talið ólíklegt að hann verði settur á ís, eða jafnvel alveg horfið frá honum.

Kína er orðið þriðja mikilvægasta innflutningslandið gagnvart Noregi, á eftir Svíþjóð og Þýskalandi. Útflutningur til Kína hefur einnig vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Sérstaklega flytja Norðmenn þangað sjávarafurðir.

Á fyrstu níu mánuðum þessa árs var flutt út sjávarfang fyrir sem svarar tuttugu og fimm milljörðum íslenskra króna.

Listbeth-Berg Hansen segist þó vongóð um að löndin muni áfram eiga góð samskipti. Hún bendir á að ríkisstjórn Noregs hafi jú ekkert með Nóbelsnefndina að gera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×