Innlent

Von á yfirlýsingu vegna gengislána

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra
„Það er nú hægt að lofa yfirlýsingu fljótlega en ég ætla nú ekki að segja nákvæmlega hvað fljótlega felur í sér," segir Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra. Viðskiptaráðuneytið hefur undanfarið átt samráð við fjármálafyrirtæki til að draga úr óvissu vegna dóms hæstaréttar um lögmæti gengistryggingar lána. Ekki er annað á honum að heyra en afrakstur þess verði gerður ljós á næstunni.

„Við viljum auðvitað reyna að draga úr óvissu sem fyrst. Það er hins vegar þannig að við getum ekki eytt allri óvissu. Það er sama hvað við gerum núna, það mun ekki eyða allri óvissu. Henni verður ekki eytt fyrr en hæstiréttur hefur átt síðasta orðið og það getur ekki orðið á allra næstu dögum."

Gylfi segist vonast þó til að hægt sé að draga úr óvissunni og koma skipulagi á lánamálin svo hægt sé að lifa við óvissuna þar til henni hefur verið eytt með öllu. Á þingfundi í gær sagði Gylfi að ef lágir samningsvextir lánanna yrðu látnir gilda áfram í ofanálag við afnám gengistryggingar þeirra gæti það reynst bankakerfinu þungt högg. En ætlar ríkisstjórnin að beita sér til að milda þetta högg á bankakerfið?

„Ríkisstjórnin getur auðvitað ekki breytt niðurstöðu hæstaréttar. Við þurfum auðvitað að haga okkur á ábyrgan hátt, og við þurfum því að koma í veg fyrir að slík niðurstaða ógni fjármálastöðugleika. Það er fyrst og fremst það sem við erum að reyna að ná fram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×