Erlent

Ummæli Merkel vekja deilur

Kanslari Þýskalands áréttar að innflytjendur séu velkomnir til landsins. Þeir þurfi bara að aðlagast siðum þess og venjum.Fréttablaðið/AP
Kanslari Þýskalands áréttar að innflytjendur séu velkomnir til landsins. Þeir þurfi bara að aðlagast siðum þess og venjum.Fréttablaðið/AP

BERLÍN, AP Þau ummæli Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að tilraunir til að skapa fjölmenningarsamfélag innan landsins hafi mistekist hrapallega hafa orðið kveikjan að miklum umræðum um stefnu Þjóðverja í innflytjendamálum.

Merkel lét ummælin falla á fundi sínum með ungum meðlimum kristilegra demókrata á laugardag. Með þeim var kanslarinn að bregðast við þeim yfirlýsingum margra þýskra stjórnmálamanna að herða beri lög og reglur um innflytjendur. Nýleg skoðanakönnun leiddi í ljós að um þrjátíu prósentum Þjóðverja þykir innflytjendur í landinu of margir.

Merkel sagði að innflytjendur væru velkomnir í Þýskalandi, en þeir þyrftu þó að læra tungumálið og aðlagast þýskum siðum og venjum. „Fjölmenningarlega nálgunin, að segja að við lifum öll í sátt og samlyndi hlið við hlið, hefur mistekist algjörlega,“ sagði Merkel.

Ummælum Merkel var tekið fagnandi af íhaldssömustu meðlimum kristilega demókrataflokksins. Margir, og þá sér í lagi íbúar heimsborgarinnar Berlín, sögðu í gær að Merkel væri ekki í tengslum við daglegt líf Þjóðverja.

Innflytjendamál komust enn á ný í hámæli í vikunni þegar baulað var á þýska knattspyrnumanninn Mesut Özil, sem er af tyrkneskum ættum, í landsleik milli Þýskalands og Tyrklands á Ólympíuleikvagninum í Berlín. Voru það stuðningsmenn Tyrkja sem bauluðu, en þeir voru fleiri en stuðningsmenn Þýskalands á áhorfendapöllunum.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×