Viðskipti innlent

Vestia vill birta upplýsingar

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra og fleiri vilja að bankarnir birti fjárhagsupplýsingar fyrirtækja í þeirra umsjón oftar en þeim er skylt að gera.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra og fleiri vilja að bankarnir birti fjárhagsupplýsingar fyrirtækja í þeirra umsjón oftar en þeim er skylt að gera. MYND: Valli

„Það er grundvallaratriði að bankarnir eða eignaumsýslufélögin þeirra birti með reglulegum hætti fjárhagsupplýsingar fyrirtækja sem eru í endurskipulagningu á heimasíðu viðkomandi banka," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.

Hann mælti með því á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga á dögunum að bankarnir birti bæði ársreikning og sex mánaða uppgjör fyrirtækja í þeirra umsjá ekki seinna en þremur mánuðum eftir lok árs. Annað geti skekkt samkeppnisstöðuna.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, tók undir með Þórði og benti á að nú horfi til betri vegar. Málið væri hluti af stjórnarfrumvarpi um breytingar á hlutafélögum.

Eignaumsýslufélög bankanna þurfa ekki að birta upplýsingar um rekstur og efnahag fyrirtækja í þeirra eigu umfram árleg skil til Ársreikningaskrár. „Við erum tilbúin að birta reglulega ákveðnar samandregnar upplýsingar á sex mánaða fresti," segir Steinþór Baldursson, framkvæmdastjóri Vestia, eignarhaldsfélags Landsbankans.

- jab




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×