Viðskipti innlent

Jón Sigurðsson verður ekki í stjórn Íslandsbanka

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformaður FME og ráðherra, hyggst ekki taka sæti í stjórn Íslandsbanka. Jón sagði í samtali við fréttastofu í morgun að leitað hefði verið til sín með setu í stjórn bankans í huga.

Hann sagðist ekki hafa sóst eftir því sjálfur, heldur hefði verið komið að máli við hann að fyrra bragði. Hann hefði síðan tekið þá ákvörðun að taka ekki sæti í stjórn bankans.

Eins og fréttastofa hefur greint frá var Jón meðal þeirra sem tilnefndir voru með óformlegri tilnefningu til Fjármálaeftirlitsins sem stjórnarmenn í Íslandsbanka. Aðrir sem voru tilnefndir eru Árni Tómasson og fjórir erlendir menn.

Sérstakt dótturfélag skilanefndar Glitnis, ISB Holding, heldur utan um 95 prósenta hlut skilanefndarinnar í Íslandsbanka. ISB Holding átti að tilnefna stjórnarmenn en eins og fréttastofa greindi frá hinn 28. desember síðastliðinn hafði stjórn þess félags ekkert um hinar óformlegu tilnefningar að segja. Þær höfðu verið ákveðnar áður af skilanefnd bankans.

Það stangaðist á við upplýsingar frá skilanefndinni sjálfri, sem vildi ekkert upplýsa um tilnefningu Árna. Jafnframt voru þær upplýsingar veittar að Jón Sigurðsson hefði verið valinn því hann nyti trausts á alþjóðlegum vettvangi og meðal kröfuhafa Glitnis.

Í gær gaf FME grænt ljós á eignarhald ISB Holding í Íslandsbanka, en eftirlitið hafði áður hafnað því að skilanefndin gæti átt hlut í bankanum með beinni eignaraðild, enda er skilanefndin í raun þrotabú og þrotabú geta ekki verið hluthafar í fjármálafyrirtækjum samkvæmt lögum.

FME setti ákveðin skilyrði fyrir eignarhaldi ISB Holding í Íslandsbanka, m.a um skipun stjórnar ISB Holding og skipun stjórnar Íslandsbanka. Meðal þessara skilyrða er að skilnefnd Glitnis geti aðeins fengið einn fulltrúa í stjórn bankans. Aðrir stjórnarmenn skuli vera óháðir og megi ekki sitja í umboði kröfuhafa Glitnis.










Tengdar fréttir

Skilanefnd líklega þegar brotið skilyrði FME

Samkvæmt lögum geta þrotabú ekki verið hluthafar í bönkum. Fjármálaeftirlitið (FME) samþykkti ekki skilanefnd Glitnis sem eiganda íslandsbanka og því var sú leið farin hjá skilanefndinni að stofna sérstakt dótturfélag, ISB Holding, til að halda utan um 95 prósent hlut skilanefndarinnar í bankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×