Lífið

Terminal til Evrópu 24. maí

Högni egilsson Hljómsveitin Hjaltalín gefur út plötu sína Terminal í Evrópu 24. maí. fréttablaðið/vilhelm
Högni egilsson Hljómsveitin Hjaltalín gefur út plötu sína Terminal í Evrópu 24. maí. fréttablaðið/vilhelm

Önnur plata Hjaltalín, Terminal, kemur út í Evrópu 24. maí með hjálp ýmissa útgáfu- og dreifingarfyrirtækja víða um álfuna. Sveitin er ekki með eiginlegan útgáfusamning erlendis og er því með marga á sínum snærum við að koma sér á framfæri.

„Þetta er eins og gengur og gerist núna á þessum tímum þegar plötusala er svona lítil," segir söngvarinn og gítarleikarinn Högni Egilsson. „Maður reynir að gera þetta til að platan sé til alls staðar og fólk geti nálgast hana. Svo spilar maður bara á tónleikum og vonar það besta."

Þrír aðilar starfa á vegum Hjaltalín í Bretlandi, þar sem einna mikilvægast er að fanga athyglina. Einn bókar tónleika, annar er í samskipti við dagblöð og sá þriðji reynir að koma sveitinni að í útvarpi.

Högni segir mikilvægt að ýta á alla rétta takkana til að ná eyrum almennings. „Þetta snýst um að pota og pota. Stór útgáfufyrirtæki taka ekki bönd nema þau hafi gefið út tvær til þrjár plötur og séu með „nethæp". Það eru engir peningar í plötusölu og á endanum þurfa allir að spila músík til að afla sér tekna. Það er erfiðara fyrir bönd að vera bókuð því það eru allir að spila svo mikið."

Hjaltalín fer í stóra tónleikaferð um Evrópu í haust til að fylgja plötunni eftir auk þess sem einhverjir tónleikar verða haldnir í maí. Tónleikaferð um Bandaríkin eru einnig fyrirhuguð í haust en óvíst er hvenær platan kemur út þar í landi.

Umsagnir um Terminal eru væntanlegar í bresku tónlistartímaritunum Q, Mojo og Clash og verður forvitnilegt að sjá hvaða móttökur platan fær. Hún var kjörin besta poppplatan á Íslensku tónlistarverðlaunum og var efst hjá tónlistarspekúlöntum Fréttablaðsins yfir bestu plötur síðasta árs. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.