Erlent

30 almennir borgarar drepnir daglega í Írak

Í ágúst árið 2007 létu fjórir Írakar lífið í átökum Bandaríkjahers og herskárra sjíamúslima í Bagdad. Á myndinni sjást þeir bornir til grafar.nordicphotos/AFP
Í ágúst árið 2007 létu fjórir Írakar lífið í átökum Bandaríkjahers og herskárra sjíamúslima í Bagdad. Á myndinni sjást þeir bornir til grafar.nordicphotos/AFP
Skjöl frá Bandaríkjaher, sem áttu að fara leynt, sýna að mannfall af völdum stríðsins í Írak hefur verið töluvert meira en til þessa hefur fengist staðfest.

Samkvæmt gögnunum, sem birt voru á vefsíðunni Wikileaks um helgina, hafa átökin í Írak kostað 109 þúsund manns lífið þann tíma sem þau ná til, en það er megnið af stríðstímanum, eða frá 1. janúar 2004 til ársloka 2009, að undanskildum maímánuði 2004 og marsmánuði 2009. Stríðið hófst í mars árið 2003.

Af þeim sem létu lífið þennan tíma voru 66 þúsund skráðir almennir borgarar, 24.000 uppreisnarmenn, 15 þúsund hermenn írösku stjórnarinnar og tæplega fjögur þúsund hermenn innrásarliðsins.

Á forsíðu Wikileaks er bent á að samkvæmt þessum tölum hafi stríðið að meðaltali kostað rúmlega 30 almenna borgara lífið á hverjum einasta degi.

Þessar tölur þurfa ekki að vera tæmandi upplýsingar um mannfall í Írak, bæði vegna þess að þær ná ekki yfir allan tímann og eins vegna þess að ekki er víst að öll þau dauðsföll, sem áttu sér í reynd stað, hafi ratað í skýrslur Bandaríkjahers.

Tölur um mannfall í Írak hafa verið mjög á reiki allar götur síðan innrás var gerð í landið í mars árið 2003.

Hæsta talan kemur frá breska læknablaðinu Lancet, sem gerði árið 2006 könnun á dauðsföllum í Írak og komst að þeirri niðurstöðu að alls hafi átökin kostað nærri 655 þúsund manns lífið, bæði beint og óbeint, fram til júnímánaðar það ár.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur reglulega birt tölur um dauðsfall bandarískra hermanna í Írak. Sú tala er komin upp í 4.425. Að auki hafa hermenn annarra innrásarríkja gefið upp samtals rúmlega 300 dauðsföll.

Á vefsíðunni Iraq Body Count hefur grannt verið fylgst með mannfalli í Írak. Þar hafa menn fullyrt að allt að 107 þúsund almennir borgarar hafi látist af völdum stríðsátakanna. Þær tölur eru byggðar bæði á fréttum, skýrslum óháðra samtaka og opinberum gögnum, sem starfsfólk síðunnar hefur tekið saman jafnóðum.

Eftir að hafa farið yfir skjölin frá Wikileaks segir á vefsíðunni Iraq Body Counts að þar hafi komið fram upplýsingar um 15 þúsund dauðsföll almennra borgara, sem áður var ekki vitað um.

Heildarfjöldi almennra borgara, sem látnir eru af völdum stríðsins, er þá kominn upp í 122 þúsund samkvæmt heimildum Iraq Body Counts. Samkvæmt þeirri tölu er meðaltal fallinna almennra borgara komið upp í 50 á hverjum einasta degi.gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×