Viðskipti innlent

Segir höfnun Icesave draga úr líkum á greiðslufalli

Greinandi hjá fjármálaþjónustunni Gerson Lehrman Group segir að fari svo að Icesave frumvarpinu verði hafnað í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu muni það draga úr líkum á greiðslufalli hjá ríkissjóði.

„Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki lent í greiðslufalli með nein af lánum sínum og ef Icesave er hafnað munu líkurnar á slíku minnka ennfrekar," segir í greiningu Gerson Lehrman Group. „Að vísu er líklegt að Bretar og Hollendingar muni halda áfram pólitísku áreiti sínu gegn Íslandi en ólíklegt er að slíkt hafi neikvæð áhrif á efnahagshorfur landsins til langs tíma."

Fjallað er um forsögu málsins, það er ákvörðun forseta Íslands sem og greint frá því að núverandi Icesave samkomulag sé álitið óréttlátt, ósanngjarnt og að því hafi verið þvingað upp á íslensk stjórnvöld undir þrýstingi frá Bretum og Hollendingum.

Í greiningunni segir að með því að hafna Icesave frumvarpinu minnki erlendar skuldir Íslands og þar með aukist hæfni landsins til þess að standa undir öðrum skuldum sínum. Samþykkt frumvarpsins aftur á móti gæti, ef allt fer á versta veg, leitt til þess að erlend skuldastaða Íslands yrði nær óbærileg. Þá segir að höfnun Icesave muni létta þrýstingi á gengi krónunnar.

Greinandinn telur að afleiðingarnar af höfnun Icesave verði meira pólitískar en efnahagslegar það er ef Bretar og Hollendingar ákveði að fylgja málinu ekki eftir með harkalegum aðgerðum. Mikill vafi leiki á lagalegum skyldum Íslands á að standa við Icesave skuldbindingar sínar, samkvæmt evrópskum lögum, þar sem Bretar og Hollendingar ákváðu einhliða að borga innistæðurnar út á sínum tíma. Bent er á að Bretar og Hollendingar hafi frá upphafi viljað semja um málið án dómsmeðferðar í réttarkerfi ESB.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×