Erlent

Sænskir morðingjar leika lausum hala á Netinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Svíar vilja hefta þann aðgang sem fangar hafa að Netinu. Mynd/ AFP.
Svíar vilja hefta þann aðgang sem fangar hafa að Netinu. Mynd/ AFP.
Morðingjar í sænskum fangelsum hafa frjálsan aðgang að Interneti úr fangelsisklefum sínum. Maður sem dæmdur hafði verið fyrir tvö morð skrifaði bloggfærslu um sjálfsmorð sitt áður en hann framdi það. Þetta kemur fram í Aftonbladet. Blaðið segir að sjálfsmorðið hafi gert marga Svía hugsi yfir því hvernig fangelsismálum er háttað í landinu, einkum hvernig aðgangur fanga að tölvum er.

Karlmaðurinn sem bloggaði um sitt eigið sjálfsmorð hét Ulf Olsson, en hann lést á sunnudaginn. Hann sat inni fyrir að nauðga og myrða 10 ára gamla stúlku og myrða 26 ára gamla konu. Maðurinn hafði nánast alveg frjálsan aðgang að Internetinu á réttargeðdeildinni sem hann var vistaður á, að því er fram kemur í Aftonbladet.

Þá notar raðmorðinginn Sture Bergwall, sem einnig er þekktur undir nafninu Thomas Quick, netið reglulega. Jyllands Posten segir að hann sé virkur á Twitter þar sem hann skrifi reglulega um daginn og veginn. Hann hafi meðal annars skrifað lista yfir þau „topp 10 morð sem hann hafi ekki framið" og þá skrifi hann jafnframt um þau morð sem hann er dæmdur fyrir.

Þá hefur fríkirkjupresturinn Helge Fossmo, sem átti aðild að morði árið 2004, einnig birt færslur á Netinu. Hann skrifar hins vegar vini sínum utan fangelsismúranna sem birtir síðan skrifin á Netinu fyrir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×