Innlent

Segir Sjálfstæðisflokkinn stimpla sig út og skila auðu

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra segir það með ólíkindum að Sjálfstæðismenn ætli að „stimpla sig út og skila auðu," þegar kemur að Evrrópumálunum en á landsfundi flokksins í dag var samþykkt ályktun þess efnis að skýr krafa sé frá Sjálfstæðisflokknum að umsókn um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði dregin til baka sem fyrst.

Árni var gestur í Íslandi í dag ásamt þeim Álheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra og Ólöfu Nordal nýkjörnum varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði mjög sérkennilegt að sjálfstæðismenn ætli sér að taka sér stöðu sem öfgasinnaður og einangraður hægriflokkur gegn þessu brýnasta hagsmunamáli þjóðarinnar. Árni sagðist telja að andstæðingar aðildar óttist að samningurinn verði á endanum svo góður að þjóðin sjái augljósan kost í að samþykkja hann. Þessvegna séu menn að leita allra leiða til þess að stöðva ferlið.

Ólöf Nordal sagði hinsvegar að allt tal um að flokkurinn væri með þessu að mála sig út í horn vera „bull". Hún sagði það liggja fyrir að þjóðin vilji ekki ganga í ESB og að fjarri sanni væri að tala um ESB aðild sem brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar. Að auki sagðist hún lengi hafa gagnrýnt að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla verði ekki bindandi.

Álfheiður Ingadóttir sagðist hinsvegar engar líkur vera á því að þjóðaratkvæðagreiðslan verði ekki látin standa. Fráleitt væri fyrir stjórnmálaflokk að ætla sér ekki að virða vilja þjóðarinnar. Hún sagðist vera á þeirri skoðun að Íslandi væri betur borgið utan ESB en þrátt fyrir það virði hún niðurstöðu Alþingis um að hefja aðildarviðræður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×