Innlent

Svandís: Almenningur njóti vafans

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að við ákvörðun um leyfilegt magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti hafi heilsa og hagsmunir almennings fengið að njóta vafans. Gústaf Adolf Skúlason aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ákvörðunin hafi valdið vonbrigðum og benti hann á að reglur hér á landi séu orðnar þrefallt strangari en Alþjóða heilbrigðisstofnunin miðar við.

Gústaf segir augljóst að um pólitíska ákvörðun að ræða en Svandís vísar því á bug. „Þetta er auðvitað þannig að við erum hér að tala um verulega losun á brennisteinsvetni í umhverfi þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa," segir Svandís. „Við verðum þess vegna að láta heilsu og hagsmuni almennings njóta vafans."

Ráðherra bendir á að orkufyrirtækin hafi þó nokkurn tíma til þess að aðlagast þessum mörkum. „Hefði ég haldið að það væri þeim metnaðarmál að koma til móts við skilyrði eins og þau best gerast í heiminum. Það útheimtir væntanlega kostnað en ég held að það hljóti þá að vera kostnaður sem leggst ofan á orkuverðið."

Svandís segir ennfremur að orkufyrirtækin séu vön því að hagsmunir þeirra séu metnir þyngra en hagsmunir annara. „Nú hefur bara orðið breyting á því."




Tengdar fréttir

Samorka: Reglugerð Svandísar veldur vonbrigðum

Gústaf Adolf Skúlason - aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi segir að ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um að setja ströng viðmið um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti valdi mönnum þar á bæ talsverðum vonbrigðum. Gústaf segir að ákvörðunin sé greinilega tekin á pólitískum forsendum en Samorkumenn töldu sig hafa unnið að málinu í góðu samstarfi við ráðuneytið og bjuggust menn við því að viðmiðin yrðu í samræmi við reglur alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar sem leyfa 150 míkrógrömm á rúmmetra. Nýja reglugerðin er hinsvegar mun strangari og leyfir aðeins 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Reglugerð sett um styrk brennisteinsvetnis

Umhverfisráðherra hefur sett reglugerð um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að markmið reglugerðarinnar sé að draga úr mengun brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum og mögulegum neikvæðum áhrifum hennar á heilsu fólks. Brennisteinsvetni hefur mælst í mun meira magni síðustu ár á höfuðborgarsvæðinu eftir að nýting jarðhita var aukin á Hellisheiðarsvæðinu en brennisteinsvetni getur haft áhrif á heilsu fólks, gróður og mannvirki að sögn ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×