Erlent

Sjálfsmorðssprengja banar sautján

Sjálfboðaliðar bera mann sem slasaðist illa á höfði úr sjúkrabíl inn á spítala þar sem gert var að sárum hans.
Fréttablaðið/AP
Sjálfboðaliðar bera mann sem slasaðist illa á höfði úr sjúkrabíl inn á spítala þar sem gert var að sárum hans. Fréttablaðið/AP
Í það minnsta sautján manns, lögreglumenn og óbreyttir borgarar, féllu þegar sjálfsmorðssprengjumaður sprengdi bíl sinn í loft upp bak við lögreglustöð í norð-vesturhluta Pakistan í gær.

Um 40 til viðbótar særðust í árásinni og óttast var að fleiri lægju grafnir undir rústum lögreglustöðvarinnar. Fjögur börn á leið í skóla og fjórir aðrir óbreyttir borgarar féllu í árásinni, auk níu lögreglumanna.

Björgunarmenn beittu stórvirkum vinnuvélum til að hreinsa rústir lögreglustöðvarinnar. Í rústunum mátti sjá skólabækur og skólatösku, auk illa farinna bíla og mótorhjóls.

Talsmaður uppreisnarmanna úr röðum talibana sagði talibana bera ábyrgð á árásinni. Hún kemur í kjölfar hrinu mannskæðra sprengjuárása í Pakistan síðustu daga. Talið er að með árásunum séu talibanar að reyna að veikja pakistönsk stjórnvöld. Þau þykja standa veikum fótum eftir hamfaraflóð sem gengið hafa yfir landið undanfarnar vikur.

Talsmaður talibana hótaði frekari árásum gegn lögreglu og öðrum óvinum talibana á næstunni. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×