Erlent

Rice greinir frá skelfingunni og fátinu 11. september 2001

Condolezza Rice fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur nú greint frá því í fyrsta sinn hversu mikil skelfing og fát greip um sig meðal æðstu ráðamanna Bandaríkjanna daginn 11. september árið 2001 þegar hryðjuverkaárásin var gerð á World Trade Center í New York og Pentagon.

Rice var þjóðaröryggisráðgjafi George Bush forseta á þessum tíma og segir að allt starfslið Hvíta hússins, með Dick Cheney varaforseta í broddi fylkingar, hafi farið í sérstakt neyðarbyrgi undir húsinu.

Þar fór síðan fljótt að bera á súrefnisskorti vegna mannfjöldans og þá hafi öryggisvörðum verið skipað að vísa út úr byrginu þeim sem ekki þóttu mikilvægir.

Þá segir Rice frá því að í fyrsta og eina skiptið á ævinni hafi hún öskrað á George Bush í síma um að hann mætti ekki koma til Washington. Bush var staddur í Flórída þegar árásin var gerð. Hann kom til Washington þrátt fyrir skipanir Rice.

Þetta og fleira kemur fram í nýjum breskum sjónvarpsþætti sem frumsýndur verður í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×