Skoðun

Nám kennara og börn með ADHD

Ingibjörg Karlsdóttir skrifar
Í námi kennara hérlendis er takmörkuð umfjöllun um ADHD (athyglisbrest og ofvirkni). Kennarar almennt hafa því við útskrift ekki nauðsynlega þekkingu á viðeigandi kennsluaðferðum sem skila árangri í vinnu með börnum með ADHD og skyldar raskanir. Umsjónarkennarar bera þó meginábyrgð á menntun og velferð barnanna innan veggja skólans. Margir kennarar hafa sjálfir aflað sér þekkingar á ADHD og víða í skólakerfinu er unnið lofsvert starf í þágu barna með ADHD í samstarfi við foreldrana. Samt sem áður er tilviljun háð hvernig viðhorf kennari hefur til barns með ADHD og hvort kennslan er aðlöguð frávikum barnsins í þroska og þörfum þess.

Ný grunnskólalög hérlendis kveða á um skóla án aðgreiningar. Þó er flestum ljóst sem starfa í grunnskólum landsins að þessi lög eru orðin tóm. Þessi lagasetning á m.a. að tryggja rétt allra barna til að stunda nám í hverfisskóla í almennum bekk. Lítið var gert til að fylgja eftir þessari lagasetningu annað en einstaklingsbundin námskrá. Engin sérstök fræðsla eða þjálfun fyrir kennara fylgdi í kjölfarið, stöðum þroskaþjálfa hefur eitthvað fjölgað, en ekki stöðugildum námsráðgjafa, iðjuþjálfa eða félagsráðgjafa í grunnskólum. Ljóst er að einn kennari stendur ekki undir því að kenna í bekk þar sem um þriðjungur barnanna og vel það eru með ólíkar greiningar (ADHD, lesblindu, einhverfu, Tourette, Asperger, þroskahömlum, líkamlega fötlun osfrv.). Skóli án aðgreiningar er því í orði en ekki á borði og algjörlega óraunhæft miðað við núverandi aðstæður kennara. Ljóst er því að staða kennara er ekki öfundsverð og efla þarf til muna handleiðslu og stuðning við kennara. Etv. gæti falist lausn í tveggja kennara kerfi hér eins og hjá frændum okkar Dönum, þá væri hægt í staðinn að spara alla stuðningsfulltrúana fyrir eitt og eitt barn. Námskeið fyrir kennara á vegum ADHD samtakannaADHD samtökin hafa nú í 5 ár staðið að símenntunarnámskeiðum fyrir kennara og annað starfsfólk grunnskóla um kennslu nemenda með ADHD. Námskeiðið var sett á laggirnar af samstarfshóp fulltrúa frá ADHD samtökunum, Félagi grunnskólakennara, Skólastjórafélagi Reykjavíkur, SAMFOK, Heimili og skóla, Kennarafélagi Reykjavíkur, sérfræðingum og SRR hjá Menntavísindasviði HÍ. Áætla má að um 10% grunnskólakennara hafi sótt námskeiðið. En betur má ef duga skal. Þar sem börn með ADHD eru flest í almennum bekk er mikið komið undir áhuga, þekkingu og viðhorfi kennarans til ADHD sem og hvernig til tekst í samstarfi heimilis og skóla, hvort barn með ADHD fær kennslu við hæfi. Fyrir þó nokkrum árum var sérdeildum í grunnskólum fækkað sem mörgum þótti á sínum tíma afleit þróun því börn með ADHD þrífast best í minni hópum. Stór rými eins og tíðkast í sumum nýrri skólabyggingum þar sem fram fer kennsla fleiri bekkja eða árganga með tilheyrandi áreiti er hins vegar skelfilegt umhverfi fyrir börn sem eiga í erfiðleikum með að útiloka ytra áreiti. Þriggja ára áætlun um bætta þjónustuSú ánægjulega þróun hefur átt sér stað undanfarin ár að stjórnvöld hafa sýnt aukinn áhuga á börnum með sérþarfir. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra var starfandi svokölluð ADHD nefnd í ráðuneytinu skipuð fulltrúum frá ráðuneytum félags-, heilbrigðis- og menntamála, ásamt fulltrúum frá BUGL, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍSF) og ADHD samtökunum. Jóhanna lagði ríka áherslu á að fá skýrar tillögur frá ADHD nefndinni um úrbætur á þjónustu við börn með ADHD. Til að gera langa sögu stutta þá var gerður samstarfssamningur rúmu ári eftir bankahrunið milli ráðuneytanna þriggja og SÍSF til þriggja ára um bætta þjónustu við börn með ADHD og langveik börn. Auglýst var eftir umsóknum frá sveitarfélögum vegna verkefna í lok árs 2009 og úthlutað árið 2010. Mörg spennandi verkefni um bætta stuðnings- og nærþjónustu við langveik börn og börn með ADHD ættu að fara í gang á vegum sveitarfélaganna haustið 2010. Í fréttabréfi ADHD samtakanna 2. tbl. 2010 má sjá yfirlit yfir úthlutanir. Skorað á fjölmiðla og aðraHér með skorar undirrituð á fjölmiðla, ráðuneyti, fagaðila og alla leiðandi sérfræðinga í málefnum barna og unglinga að tjá sig opinberlega með jákvæðum hætti um þennan hóp barna sem hér um ræðir. Endalaus neikvæð umfjöllun um ADHD og lyfjanotkun hefur óhjákvæmilega áhrif á börnin og hvetur til neikvæðra viðhorfa í samfélaginu til þeirra. Við þurfum öll að taka höndum saman um að efla jákvæð viðhorf í garð barna með ADHD og skyldar raskanir og auka skilning almennings og allra viðkomandi á orsökum og afleiðingum ADHD.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×