Erlent

Segja Avatar byggja á kynþáttahyggju

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ AFP.
Mynd/ AFP.
Hin vinsæla kvikmynd James Cameron, Avatar, er sögð fela í sér kynþáttahyggju. Þetta segir í frétt á vef Daily Telegraph. Gagnrýnendur segja að í boðskap sögunnar megi lesa að litaðir menn séu frumstæðir og ófærir um að bjarga sjálfum sér. Telegraph segir að þessa gagnrýni sé að finna í hundruðum bloggfærslna, YouTube myndskeiða og Twitter færslna.

Avatar gerist á fjarlægri plánetu þar sem svokallaðir Navar búa. Þeir eru blálitaður hópur geimvera sem hafa engan skilning á nútímatækni. Hópur geimfara er sendur til innrásar að svæði Navanna en leiðtogi þeirra gengur til liðs við geimverurnar og hjálpar þeim að verja heimkynni sín. Hann verður svo ástfanginn af einni geimverunni.

Dálkahöfundar í New York Times eru á meðal þeirra sem gagnrýna myndina. David Brooks, dálkahöfundur í blaðinu, segir að myndin byggi á þeirri staðalímynd að hvítt fólk sé rökhyggjufólk og tæknilegt, en litað fólk sé andlega þenkjandi og íþróttamannslegt.

Daily Telegraph segir reyndar að þessi gagnrýni hafi ekki haft áhrif á aðsókn að myndinni. Hún hafi halað inn einn milljarð sterlingspunda, eða sem nemur 200 milljörðum króna, á einungis 17 dögum, sem sé nýtt met.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×