Lífið

Listamenn blása til golfmóts úti á Nesi

Kormákur Geirharðsson og Arnar Jónsson eru báðir með undir tíu í forgjöf. Þeir taka þátt í golfmóti listamanna ásamt Birni Brynjúlfi Björnssyni.
Kormákur Geirharðsson og Arnar Jónsson eru báðir með undir tíu í forgjöf. Þeir taka þátt í golfmóti listamanna ásamt Birni Brynjúlfi Björnssyni.

„Við erum búin að tala um þetta í fimm til sex ár og ætlum nú loks að láta verða af þessu," segir Björn Brynjúlfur Björnsson en Bandalag íslenskra listamanna hyggst halda golfmót úti á Seltjarnarnesi 23. maí næstkomandi. Eina skilyrðið fyrir þátttöku er að menn séu meðlimir í einhverju af aðildarfélögum Bandalags íslenskra listamanna.

Björn er sjálfur liðtækur kylfingur, er með 12,9 í forgjöf sem verður að teljast nokkuð gott. „Ég byrjaði "94 og þetta er besta forgjöfin sem ég hef verið með frá því að ferillinn í þessu sporti byrjaði," segir Björn og viðurkennir að golfið sem íþrótt henti listamönnum ákaflega vel.

Björn segir aðeins fjörutíu og fjóra komast að í þessu móti en stefnt sé að því að hafa það árlega. „Við erum að láta smíða bikar en menn hafa ekki reynst tilbúnir til að leggja heiðurs- eða listamannslaun að veði eða einhverja styrki," bætir Björn við og hlær en skráning fer fram á fih.is.

Fjölmargir listamenn hafa lagt stund á golfið og þeir hafa margir skráð sig í mótið. Nægir þar að nefna stórleikarann Arnar Jónsson sem er með 9,5 í forgjöf og Kormák Geirharðsson en hann er með 9,2 í forgjöf.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Lárus Ýmir Óskarsson er skráður með 9,9 í forgjöf en fyrrum Spaugstofufélagarnir Randver Þorláksson og Sigurður Sigurjónsson eru á svipuðum stað ef marka má skráninguna; Randver er með tæpa tuttugu í forgjöf á meðan Sigurður er með 23.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.