Innlent

Þjóðhagslega hagkvæm aðgerð

Heilbrigðisnefnd Alþingis vill taka upp bólusetningu allra stúlkna gegn leghálskrabbameini.
Heilbrigðisnefnd Alþingis vill taka upp bólusetningu allra stúlkna gegn leghálskrabbameini.

Ráðist verður í bólusetningu allra barna við pneumokkasýkingu, sem veldur eyrnabólgu, ef Alþingi fer að tillögu heilbrigðisnefndar og afgreiðir þingsályktunartillögu frá Siv Friðleifsdóttur og fleiri þingmönnum.

„Það er álit nefndarinnar að hér sé um þarft mál að ræða enda eru eyrnabólgur eitt algengasta heilsuvandamál barna hér á landi og skýrir yfir 50 prósent allrar sýklalyfjanotkunar hjá börnum," segir í þverpólitísku áliti heilbrigðisnefndar.

„Bólusetning gegn pneumó­kokkasýkingum er þjóðhagslega hagkvæm aðgerð sem skilar sér strax í auknum lífsgæðum, minni notkun sýklalyfja, minna álagi á heilbrigðisstofnunum, minna vinnutapi hjá foreldrum sem og jákvæðum hjarðáhrifum." Fram kemur að í heilbrigðisráðuneytinu sé til áætlun um að öll börn fædd 2011 fái slíka bólusetningu.

Heilbrigðisnefnd hefur jafnframt afgreitt tillögu frá Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og fleirum um að allar 12 ára stúlkur verði bólusettar gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini og telur að einnig eigi að ráðast í þá aðgerð þótt hún eigi þó að vera aftar í forgangsröð en bólusetning gegn eyrnabólgu.

Báðar þessar tillögur voru á dagskrá þingsins í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×