Erlent

Hugðist ráða Clinton bana

Kurt Westergaard Danski skopteiknarinn gat forðað sér inn í sérútbúið herbergi á heimili sínu. fréttablaðiÐ/AP
Kurt Westergaard Danski skopteiknarinn gat forðað sér inn í sérútbúið herbergi á heimili sínu. fréttablaðiÐ/AP

Leyniþjónusta dönsku lögreglunnar, PET, hafði vitneskju um að Sómalinn, sem reyndi að ráðast á skopteiknarann Kurt Westergaard á laugardag, hafi verið handtekinn í Keníu í september síðastliðnum.

Danska dagblaðið Politiken skýrir frá þessu og segir jafnframt að lögreglan í Keníu hafi haft hann grunaðan um að hafa ætlað að ráða af dögum Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hafði þá verið á ferðinni í Keníu.

Politiken segir enn fremur að lögreglan í Keníu hafi fljótlega látið Sómalann lausan vegna skorts á sönnunargögnum.

Á laugardaginn hafði Jakob Scherf, yfirmaður PET, sagt að Sómalinn hafi verið grunaður um tengsl við hryðjuverkasamtökin Al-Shabab í austanverðri Afríku.

Bo Jensen, sendiherra Danmerkur í Keníu, segir hins vegar að Sómalinn hafi verið handtekinn vegna þess að hann hafi ekki haft nauðsynleg ferðaskilríki. Hann segir að yfirvöld í Keníu hafi aldrei sagt Sómalann hafa verið grunaðan um hryðjuverk, heldur sé þar líklega misskilningur á ferð af hálfu Politiken.

Westergaard er einn tólf danskra skopteiknara sem teiknuðu myndir af Múhameð spámanni, sem birtust í danska dagblaðinu Jyllandsposten haustið 2005 og ollu miklu uppnámi í heimi múslima árið eftir. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×