Lífið

Hefði aldrei spilað gegn Teddy við pókerborðið

Teddy Sheringham og Auðunn Blöndal, hressir í Mónakó á dögunum.mynd/egill einarsson
Teddy Sheringham og Auðunn Blöndal, hressir í Mónakó á dögunum.mynd/egill einarsson

Sjónvarpsmaðurinn Auðunn Blöndal hitti einn af eftir­lætis knattspyrnumönnum sínum á pókermóti í Mónakó á dögunum.

„Teddy var hrikalega ferskur,“ segir sjónvarpsmaðurinn og pókerspilarinn Auðunn Blöndal.

Auðunn tók þátt í lokamóti Evrópumótaraðarinnar í póker á dögunum í Mónakó ásamt Agli Einarssyni. Þeir félagar eru harðir stuðningsmenn Manchester United og héldu því vart vatni þegar þeir sáu að Teddy Sheringham, fyrrverandi leikmaður rauðu djöflanna, var á meðal þátttakenda á mótinu.

„Ég sagði við Teddy Sheringham þegar ég hitti hann að ef ég hefði lent með honum á borði hefði ég aldrei „reisað hann og foldað“ bestu höndunum á móti honum fyrir markið hans "99 á móti Bayern München,“ segir Auddi á pókermáli og vísar í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 1999 þegar Teddy Sheringham skoraði jöfnunarmarkið áður en Ole Gunnar Solskjær tryggði liðinu sigur á ögurstundu. „Það var fínt að ég lenti ekki með honum á borði því ég hefði aldrei viljað vinna Teddy.“

Auddi og Egill spiluðu svipað lengi í mótinu, þó að sá síðarnefni hafi komist ögn lengra. Auddi datt út þegar 40 mínútur voru eftir af fyrsta degi, en Egill 40 mínútum eftir að annar dagur hófst. Teddy gekk hins vegar allt í haginn framan af og hafnaði að lokum í 103. sæti. Fyrir það fékk hann 20.000 evrur, eða um 3,4 milljónir króna. „Hann kann alveg að spila karlinn,“ segir Auddi.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.