Erlent

Osama hefur það ágætt, takk

Óli Tynes skrifar
Osama bin Laden.
Osama bin Laden.

Háttsettur embættismaður NATO segir við fréttastofuna CNN að Osama bin Laden leiðtogi Al Kaida haldi sig í norðvesturhluta Pakistans og lifi þar þægilegu lífi. Hann njóti verndar leyniþjónustu Paikistans og nágranna sinna. Embættismaðurinn vill ekki láta nafns síns getið. Hann málar dökka mynd af ástandinu í Afganistan.

Talibönum bætist sífellt liðsauki þrátt fyrir hertar aðgerðir gegn þeim. Þeir skiptast niður í hópa eftir héruðum og stærst hópurinn hafi um 30 þúsund manns undir vopnum. Embættismaðurinn segir jafnframt að 95 prósent nýrra liðsmanna gangi til liðs við talibana vegna þess að þeir hafi ekki í önnur hús að venda. Efnahagur landsins sé slæmur og litla vinnu að hafa.

Brýnt sé að leysa efnahagsvandann og koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það eitt geti fækkað stríðsmönnum talibana. Pakistanar neita að leyniþjónustan hafi nokkurt samband við bin Laden.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×