Erlent

Þriðji hver Dani viðurkennir framhjáhald

Þriðji hver Dani viðurkennir að hafa haldið framhjá maka sínum. Svo virðist sem mikil veðurblíða í Danmörku undanfarnar vikur hafi aukið framhjáhald landsmanna.

Þetta eru niðurstöður könnunnar sem Gallup vann fyrir dagblaðið B.T. Þar kom meðal annars fram að 32% aðspurðra viðurkennir að hafa haldið framhjá maka sínum. Hættan á framhjáhaldi er mest í veðurblíðunni á sumrin en sumarið í ár þykir gott þegar kemur að veðurfarinu.

B.T. ræðir við kynlífsfræðinginn Vivi Hollænder um niðurstöður könnunarinnar en hún segir að hættan á framhjáhaldi sé í hámarki þessa stundina í Danmörku vegna mikillar veðurblíðu. Veðrið geri það að verkum að konur og karlar ganga um léttklæddari en áður og mikið sé um hálfnakta kroppa á ströndum landsins þessa dagana.

Hollænder segir að tíðni framhjáhalda á sumrin sé álíka mikil og þegar jólahlaðborðin eru í fullum gangi í desember. Fram kemur í könnuninni að í 34% tilvika var framhjáhald stundað með vinnufélögum en í 31% tilvika réð tilviljun vali á bólfélaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×