Erlent

Talibanar bjóða lík fyrir fanga

Talibanar segjast vera með bandarísku hermennina í sínu haldi en yfirvöld á svæðinu vilja ekki gefa neitt út á það.
Fréttablaðið/afp
Talibanar segjast vera með bandarísku hermennina í sínu haldi en yfirvöld á svæðinu vilja ekki gefa neitt út á það. Fréttablaðið/afp
Talibanar í Afganistan segjast hafa fellt bandarískan hermann og séu með annan í haldi. Hermannanna tveggja hefur verið saknað síðan á föstudag. Talibanar gáfu út yfirlýsingu í gær um þeir hefðu fellt annan í skotárás en að hinn væri á lífi í haldi þeirra.

Yfirvöld Nató og Bandaríkjahers í Afganistan staðfesta að mennirnir séu týndir en verjast að öðru leyti frétta. Víðfeðm leit hefur staðið yfir um helgina en mennirnir fóru frá bandarísku herstöðinni í Kabúl án þess að láta neinn vita, sem er óvanalegt á þessu hættulega svæði.

Síðast sást til mannanna á jeppa akandi inn á yfirráðasvæði talibana. Í yfirlýsingu talibana segir að hermennirnir hafi hafið skothríð sem talibanar hafi svarað og fellt annan hermanninn en tekið hinn höndum. Hafa þeir boðið lík þess látna í skiptum fyrir fanga úr sínum röðum, sem eru í haldi hjá Bandaríkjamönnum.

Ekki er vitað hvað hermönnunum gekk til að fara sjálfviljugir inn á yfirráðasvæði talibana en talsmenn Nató og Bandaríkjahers neita að tjá sig frekar. - áp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×