Erlent

Harmleikurinn í Duisburg - lögreglan varaði skipuleggjendur við

Göngin
Göngin
Að minnsta kosti 19 eru látnir og yfir 340 slasaðir eftir að stærsta danspartý í heimi breyttist í harmleik. Forseti Þýskalands hefur krafist rannsóknar á orsökum slyssins. Gestir á Love Parade eða Gleðgöngunni í Duisburg þurftu margir hverjir áfallahjálp eftir að hafa horft á fólk troðast undir og láta lífið.

„Ég var heppinn, ég fann glufu í mannfjöldanum, en við hliðina á mér dóu tvær stúlkur," segir Daníel, ungur Þjóðverji sem var einn þeirra sem lentu í múgæsingu í undirgöngum á leiðinni inn á dansvæðið.

Deilt er um ástæður slyssins. Þýska blaðið Spiegel greinir frá því að lögreglan hafi fyrir Love Parade hátíðina varað skipuleggjendur við að skapaðar yrðu aðstæður þar sem þrengdi að hátíðargestum. Love Parade hátíðin var upphaflega haldin í Berlín og er þekkt fyrir mikla nekt, frjálsar ástir og mikla dópneyslu.

En þrátt fyrir aðvaranir lögreglunnar var múgnum beint í gegnum þröng undirgöng. Fólkið reyndi á sama tíma að komast burt meðan aðrir létu sig síga ofan af hraðbrautinni fyrir ofan til að slást í danshópinn. Þegar fyrsta manneskjan féll og lét lífið braust út múgæsing og fjöldi manns tróðst undir.

„Ég heyrði bara öskur, ég féll á gólfið og fólk hljóp yfir mig, svo tókst mér að reisa mig við og hlaupa í burtu," segir einn þeirra sem staddur var inn í göngunum. Þýsk blaðakona Petra Vennebusch sem tók myndir af atburðinum sagði fólk hafa verið reitt. „Það var mikið áfengi og mikið dóp í gangi," bætti hún við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×