Erlent

Þúsundir taka þátt í minningarathöfn í Duisburg

Frá slysstað. Saksóknari hefur hafið rannsókn á slysinu.
Frá slysstað. Saksóknari hefur hafið rannsókn á slysinu.
Þúsundir manna tóku þátt í minningarathöfn í morgun um þá sem létust í undirgöngum í Duisburg í Þýskalandi fyrir viku. Alls létust 21 á teknó-tónlistarhátíðinni Love Parade sem haldin var í borginni og yfir 500 slösuðust þegar múgæsing greip um sig í undirgöngum sem lágu að hátíðarsvæðinu.

Fólk lagði blóm við innganginn þar sem troðningurinn varð og sóttu Angela Merkel kanslari og Christan Wulff forseti Þýskalands guðsþjónustu í morgun. Einungis 600 manns geta setið í kirkju bæjarins en þúsundir fylgdust með minningarathöfninni á stórum skjáum við knattspyrnuleikvang í borginni.

Stór kross var settur upp á leikvanginum og voru viðstaddir svartklæddir og margir grétu. Þá var athöfnin sýnd í beinni í þýsku sjónvarpi.

Síðar í dag verður svo ganga frá lestarstöðinni í bænum að undirgöngunum þar sem slysið varð. Búist er við því að 20 þúsund manns muni taka þátt í göngunni.

Þá hafa íbúar landsins dregið þýska fánann í hálfa stöng um allt landið. Saksóknari hefur hafið rannsókn á slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×