Viðskipti innlent

Seðlabankinn með slakan árangur í verðbólgubaráttu

„Mikilvægt er að skoða þá valkosti sem standa til boða í ljósi þess að árangur þeirrar peningastefnu sem tekin var upp snemma á þessum áratug hefur ekki reynst nægur.

Þótt fyrirkomulagið hafi verið byggt á hugmyndum hagfræðinnar um besta fyrirkomulag peningamála og reynslu fjölda landa sem náð hafa góðum árangri í stjórn peningamála, hefur árangur Seðlabankans í viðureigninni við verðbólgu verið slakur nánast allt tímabilið frá því að verðbólgumarkmiðið var tekið upp og verri en í öðrum ríkjum með sambærilegt fyrirkomulag."

Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um peningastefnuna eftir gjaldeyrishöftin þar sem m.a. eru skoðaðir þeir möguleikar sem eru í stöðunni núna til að breyta peningastefnu bankans.

„Væntanlega eru margar ástæður fyrir slökum árangri. Þ.á m. má nefna að gerð íslensks þjóðarbúskapar gerir sjálfstæða peningastefnu erfiða viðfangs, óvenjulegar aðstæður voru í bæði alþjóðlegum og innlendum efnahagsmálum og fjármálamörkuðum og ákveðinn misbrestur var í framkvæmd peningastefnunnar, sem tókst ekki að ávinna sér nægilegan trúverðugleika," segir í skýrslunni.

Síðan segir að þessu til viðbótar er líklegt að vaxandi alþjóðavæðing innlends fjármálakerfis og ofvöxtur þess hafi orðið til þess að veikja miðlun peningastefnunnar út í efnahagslífið og skapa áhættu í fjármálakerfinu sem magnaði gengissveiflur sem reyndust erfiðar viðureignar fyrir peningastefnuna. Stefnan í opinberum fjármálum var einnig mjög á skjön við stefnuna í peningamálum sem jók á neikvæð hliðaráhrif peningalegs aðhalds.

„Ef fallið yrði frá sjálfstæðri peningastefnu með fljótandi gjaldmiðil og tekin upp fastgengisstefna væri heppilegast út frá hagrænum sjónarmiðum að festa gengi krónunnar við evruna. Fastgengisstefna hefur bæði kosti og galla. Meðal helstu kosta eru að óvissa tengd gengissveiflum verður minni, a.m.k. ef tekst að varðveita fastgengið og forðast spákaupmennskuárásir. Á móti kemur að sjálfstæðri peningastefnu verður ekki beitt með innlendar efnahagsaðstæður í huga," segir í skýrslunni.

„Aðlögun þjóðarbúskaparins í kjölfar ytri skella á sér því stað í meira mæli í gegnum raunstærðir líkt og atvinnu og framleiðslu. Þetta er þó ekki einhlítt, því að innlendar hagsveiflur kunna einnig að eiga rót sína að rekja til gengissveiflna að nokkru leyti. Verði fastgengisfyrirkomulag hins vegar tekið upp, eru mismunandi útfærslur mögulegar. Innganga í Myntbandalag Evrópu, sem fylgir aðild að Evrópusambandinu, virðist betri kostur en tenging við evruna eða einhliða upptaka hennar eða önnur veikari form fastgengistenginga."






Tengdar fréttir

Seðlabankinn telur evruna besta kostinn

Innganga í EMU, Myntbandalag Evrópu, sem fylgir aðild að Evrópusambandinu, virðist því besti kosturinn, eigi á annað borð að festa gengi krónunnar við evru eða taka hana upp sem innlenda mynt.

Seðlabankinn birtir skýrslu um peningastefnuna

Seðlabanki Íslands hefur birt skýrslu um peningastefnu hér á landi og afhent hana efnahags- og viðskiptaráðherra. Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu sjónarmiðum er varða framtíðarfyrirkomulag gengis- og peningamála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×