Viðskipti innlent

Vísaði gróusögum á bug um áramót

Þorvaldur Lúðvík
Þorvaldur Lúðvík

Saga Capital hefur ekki fellt niður skuldir starfsmanna sinna líkt og Kaupþing og þá hafa engir fjármunir farið frá ríkinu til Saga Capital. Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi frá Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, forstjóra bankans, til hluthafa á gamlársdag.

Bréfið er, að sögn, skrifað þar sem borið hefur á misskilningi og meiðandi umfjöllun um bankann sem nauðsynlegt sé að leiðrétta. Þar kemur fram að bankinn færði um 41 prósent útlána, jafnvirði 2,6 milljarða króna, á varúðarreikning og þar af nemi varúðarniðurfærslur vegna lána og ábyrgða starfsmanna 450 milljónum króna. Þessi mikla varúðarfærsla sé gerð í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu, engar skuldir, hvorki hjá starfsmönnum né öðrum, hafi verið felldar niður, lánin séu innheimt áfram og það verði gert þar til sannað þyki að viðkomandi sé kominn í þrot.

Þá vísaði Þorvaldur því á bug í bréfinu að fjármunir hafi farið frá ríki til fjárfestingarbankans. Í kjölfar hrunsins hafi skuldir fjármálafyrirtækja við Seðlabankann verið yfirteknar af ríkissjóði sem, til að tryggja endurgreiðslu, hafi boðið þeim fyrirtækjum sem stóðust mat á lánshæfi að semja um skuldir sínar á lágum vöxtum.

Ekkert nýtt lán var veitt, eingöngu var um skuldbreytingu að ræða, segir í bréfinu. Með samningnum hafi verið tryggt að engir fjármunir hafi farið frá ríki til Saga Capital né sé ríkissjóður í neinum ábyrgðum vegna innstæðna hjá bankanum. Standi fjárfestingarbankinn hins vegar ekki við skuldbindingar sínar eða fari eiginfjárhlutfall undir ákveðin viðmið geti ríkið breytt skuldinni í hlutafé í Saga Capital. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×