Innlent

Óvissa og tóm í stjórnarskránni

Björg Thorarensen
Björg Thorarensen Mynd/GVA

„Forsetinn þarf ekki að rökstyðja ákvörðun sína þótt hann vilji gera það til að réttlæta niðurstöðuna," segir Björg Thorarensen, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands. Hún segir rökstuðninginn hafa litla þýðingu.

Aðalatriðið segir Björg vera málskotsheimild forseta í stjórnarskrá og segir merkilegt að stjórnmálamenn skuli ekki, eftir ákvörðun forseta árið 2004, þegar hann synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar, hafa tekið málið upp og búið til farveg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur. Þá hafi berlega komið í ljós hversu margir óvissuþættir væru tengdir málskotsákvæði stjórnarskrárinnar.

„Á meðan við búum ekki betur um hnútana sjálf þá er það ávísun á ágreining," segir Björg og bendir á að nágrannaþjóðir okkar hafi flestar búið til skýra umgjörð um þjóðaratkvæði.

„Þar eru til að mynda skýrar reglur um hvaða mál fara ekki í þjóðaratkvæði og sum fara alltaf í þjóðaratkvæði, svo sem breytingar á stjórnarskrá. Ég þekki ekkert dæmi þess að mál á borð við þetta, lög um ríkis­ábyrgð á láni sem er partur af fjárstjórnarvaldi þingsins, færi í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Hér segir Björg málskotsréttinn svo illa útfærðan, að eins væri hægt að vísa fjárlögum ríkisins til þjóðarinnar. „Menn kjósa fremur algjöra óvissu og tóm 26. greinar stjórnarskrárinnar. Ég tel óheppilegt að fela forseta lýðveldisins óhefta ákvörðun um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lög." - óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×