Viðskipti innlent

Erlendir líklega atkvæðamiklir í ríkisvíxlakaupum

Greining Íslandsbanka segir að líklegt sé að erlendir eigendur krónueigna hafi verið atkvæðamiklir í útboði Seðlabankans á ríkisvíxlum í gærdag.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að útboðið hafi tryggt ríkissjóði 20 milljarða kr. fjármögnun til næstu fjögurra mánaða á hagstæðari kjörum en lengi hafa sést á innlendum skuldabréfamarkaði.

Gild tilboð í víxlana, sem hafa gjalddaga þann 15. september næstkomandi, námu ríflega 53 milljörðum kr. að nafnvirði. Meðaltal flatra vaxta var 5,74% í þeim tilboðum sem tekið var, en í útboði á 3ja mánaða ríkisvíxlum í apríl var meðaltal flatra vaxta 11,86%. Vaxtakostnaður ríkisins við útgáfu nýrra ríkisvíxla hefur því helmingast á rúmum mánuði.

„Þetta hljóta að teljast jákvæð tíðindi fyrir ríkissjóð, sem stendur frammi fyrir verulegum vaxtagreiðslum til að standa straum af aukinni lántöku vegna fjárlagahalla næstu missera. Einnig hjálpar lág ávöxtunarkrafa í víxlaútboðinu nú til að minnka þrýsting á krónuna vegna vaxtagreiðslna til erlendra aðila í september," segir greiningin.

Ljóst er að vaxtavæntingar á markaði útskýra tæplega niðurstöðu útboðsins í gær. Innlánsvextir á millibankamarkaði eru nú 7,75% til 3ja mánaða og 7,5% til sex mánaða. Þátttakendur í útboði gærdagsins hefðu því væntanlega getað nælt sér í talsvert hærri ávöxtun næstu mánuðina með innlánum í hérlendum fjármálastofnunum. Líklegt er að erlendir eigendur krónueigna hafi verið atkvæðamiklir í útboðinu í gær.

Þessum aðilum er oft þröngur stakkur sniðinn varðandi þá ávöxtunarkosti sem þeir mega nýta sér hér á landi. Virðast þeir því sækjast í skammtímapappíra með ríkisábyrgð af miklu kappi og sætta sig við tiltölulega litla ávöxtun.

Í ársáætlun Seðlabankans fyrir lánamál ríkissjóðs kom fram að ætlunin væri að draga úr útgáfu ríkisvíxla á árinu en verði framhald af slíkum viðtökum við víxlaútgáfunni teljum við hugsanlegt að sú áætlun verði endurskoðuð, sé á annað borð svigrúm til slíks.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×