Viðskipti innlent

Hlutir í Alfesca verða innleystir

Lur Berri Iceland ehf. og stjórn Alfesca hf. hafa ákveðið að þeir hluthafar í Alfesca sem ekki samþykktu yfirtökutilboð Lur Berri Iceland og eru ekki í hópi samstarfsaðila um stjórn og rekstur Alfesca skuli sæta innlausn af hálfu Lur Berri Iceland á hlutum sínum í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti.

Þetta kemur fram í tilkynningu en Lur Berri Iceland og samstarfsaðilar um stjórn og rekstur Alfesca eiga samtals 91,34% hlutafjár í Alfesca og fara með 91,87% atkvæðisréttar í félaginu.

Innlausnin tekur til allra annarra hluta og nær til annarra hluthafa Alfesca sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í upphafi dags 26. ágúst 2009. Þeim hluthöfum er send þessi tilkynning ásamt framsalseyðublaði. Tilkynning þessi er birt í dagblöðum í samræmi við samþykktir Alfesca um boðun aðalfundar.

Hluthafar í Alfesca, sem innlausnin tekur til, eru hvattir til að framselja Lur Berri Iceland hluti sína í Alfesca innan fjögurra vikna frá dagsetningu þessarar tilkynningar.

Innlausnarverðið er 4,5 kr. fyrir hvern hlut í Alfesca. Greitt verður fyrir hlutina með reiðufé. Er um að ræða sama verð og Lur Berri Iceland bauð hluthöfum Alfesca í yfirtökutilboði frá 25. júní 2009. Greiðslan verður innt af hendi 29. september 2009.

Til að framselja Lur Berri Iceland hluti sína í Alfesca þurfa hluthafar að fylla út framsalseyðublað sem þeim mun verða sent með þessari tilkynningu. Rétt útfyllt framsalseyðublað verður að berast Fyrirtækjaráðgjöf Nýja Kaupþings banka hf., Borgartúni 19, 105 Reykjavík, fyrir kl. 12:00 þann 24. September 2009.

Hafi hlutir í Alfesca ekki verið framseldir Lur Berri Iceland í samræmi við framangreint, verður andvirði hlutanna í Alfesca greitt inn á geymslureikning í nafni viðkomandi hluthafa. Frá þeim tíma telst Lur Berri Iceland réttur eigandi viðkomandi hluta í Alfesca.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×