Viðskipti innlent

Seðlabankinn þarf ekki spilapeninga

Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík.
Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík. Mynd/GVA
Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, tekur undir með Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, sem segir að íslenska ríkið þurfi ekki nauðsynlega á öllum þeim erlendu lánum að halda sem eru í boði. Ólafur segir ennfremur að Seðlabankinn þurfi ekki á spilapeningum að halda.

Már sagði í fréttum Rúv í gær að ríkið þurfi ekki nauðsynlega á öllum þeim erlendu lánum að halda sem eru í boði. Það myndi lækka skuldastöðu ríkisins um hundruð milljarða og minnka vaxtakostnað verulega ef einungis hluti lánanna yrði þeginn.

Ólafur var gestur í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í morgun. Hann tekur undir með Má og segir að umfram allt þurfi ríkið að eiga aðgang að öruggum lánsheimildum.

„Slíkar heimildir eru ríkissjóði miklu kostnaðarminni en fullt eigið lán. Það liggur fyrir að það sem að ríkissjóður þarf að standa í skilum með, sem eru samningsbundnar skuldbindingar ríkisins, það er milljarður evra árið 2011 og síðan 200 til 250 milljónir evra á árunum 2012 og 2014. Það verður að vera til fé svo það megi ljúka þessum skuldbindingum," segir Ólafur.

Ólafur segir að sömuleiðis þurfi að vera til fé svo aðilar með ríkisábyrgð geti staðið við skuldbindingar sínar. „Loks þarf að vera til lágmarksfé í gjaldeyrisvarasjóði til að tryggja eðlileg og greið vöruviðskipti til og frá landinu. Það er ekki um það að ræða að fylla sjóði af peningum svo að Seðlabankinn geti notað þá sem einhverja spilapeninga til að verja gengi krónunnar."






Tengdar fréttir

Seðlabankastjóri segir þörfina á lánum hugsanlega ofmetna

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að íslenska ríkið þurfi ekki nauðsynlega á öllum þeim erlendu lánum að halda sem eru í boði. Það myndi lækka skuldastöðu ríkisins um hundruð milljarða og minnka vaxtakostnað verulega ef einungis hluti lánanna yrði þeginn. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×