Innlent

Alþingi á aðeins einn kost

„Gleymum því aldrei að mistök stjórnmálamanna eru núna að lenda á okkur – þjóðinni.“



</I>Gylfi Arnbjörnsson
„Gleymum því aldrei að mistök stjórnmálamanna eru núna að lenda á okkur – þjóðinni.“ </I>Gylfi Arnbjörnsson

„Það verður að klára þetta. Öðruvísi komumst við ekki í samband við erlenda fjármagnsmarkaði sem endurreisnin byggir á," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann færir, ásamt öðrum forsvarsmönnum atvinnulífsins og verkalýðsforystunnar, sömu rök og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrir samþykkt frumvarps um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna.

Steingrímur sagði við fyrstu umræðu frumvarpsins á miðvikudag að yrði frumvarpið fellt myndi allt annað stranda á því. „Þá kemur október aftur," sagði Steingrímur.

Áfram var tekist á um Icesave-samningana á Alþingi í gær, annan daginn í röð. Að því loknu var frumvarpinu vísað til fjárlaganefndar, sem kom saman síðdegis til að fara yfir hvaða gesti nefndin skyldi fá á sinn fund vegna málsins og hverjum málið skyldi sent til umsagnar. Búist er við því að fyrstu gestirnir komi fyrir nefndina á mánudag.

Fjárlaganefnd mun hafa yfirumsjón með vinnunni við frumvarpið en ákveðnum hlutum þess mun verða vísað til efnahags- og skattanefndar og utanríkismálanefndar. Áætlað er að það þurfi rúma viku í nefndum áður en það verður tekið til annarrar umræðu á Alþingi.

Vilhjálmur segir lyktir málsins alltaf hafa verið skilyrði fyrir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og annarra þjóða að lánveitingum. „Ég tel ekki að með því að hafna samningnum sé hægt að fá annan betri í framtíðinni." Vilhjálmur segir að innstreymi erlends fjármagns sé lykilatriði til að koma atvinnulífinu í gang og öll uppbygging næstu ára hvíli á því. „Án aðgangs að slíku lánsfé búum við til kreppu sem mun standa yfir svo árum skiptir."

„Gleymum því aldrei að mistök stjórnmálamanna eru núna að lenda á okkur - þjóðinni," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins. Hann segir að í því ljósi sé holur hljómur í málflutningi stjórnarandstöðunnar þessa dagana. „Mér sýnist, í þeirri stöðu sem við erum í, að samningarnir geri okkur betur kleift en á horfðist að leysa úr þessu erfiða máli. Staðan er sú að ef þjóðin ætlar í þessa deilu með því að fella þessa samninga og setja allt málið í uppnám aftur er verið að taka áhættu sem ekki er þess virði að taka."

Helgi Magnús­son, formaður Samtaka iðnaðarins, segir málið í heild sinni skelfilegt fyrir Íslendinga. Hann er ósáttur við hvernig að samningunum var staðið og hefði kosið að færustu sérfræðingar hefðu verið valdir til viðræðnanna við Breta og Hollendinga í stað þess að láta fyrrverandi stjórnmálamann leiða samninganefnd Íslands á móti þaulvönum sérfræðingum mótaðilanna. „Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá mun sanngjarnari vexti eins og margir hafa bent á. En nú liggur þessi samningur svona á borðinu og það þarf að taka afstöðu. Ég öfunda alþingismenn ekki af því að þurfa að leiða þetta erfiða mál til lykta en ég er þeirrar skoðunar að við eigum engan annan kost en að samþykkja samninginn og ljúka málinu. Íslendingar standa við skuldbindingar sínar og ég óttast afleiðingar þess ef Alþingi fellir samninginn. Þá tæki við enn meiri óvissa í íslensku efnahagslífi en nú er. Nóg er nú samt."

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að stjórn samtakanna hafi ekki ályktað formlega um málið en það hafi verið rætt. „Ég heyri ekki betur en að allir stjórnarmenn okkar séu þeirrar skoðunar að við eigum um ekkert annað að velja en að samþykkja þennan samning, eins dapurt og það nú er."




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×