Viðskipti innlent

SÍ beitir auknum inngripum til að styrkja krónuna

Ekki er hægt að útiloka að tilkoma nýs manns til starfa í brú Seðlabankans (SÍ) eigi einhvern þátt í auknum umsvifum hans á gjaldeyrismarkaði nú.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka en Seðlabankinn mun hafa selt 500.000 evrur í gær og eina milljón evra það sem af er degi. Hefur bankinn tvöfaldað það magn af evrum sem hann selur í einu úr 250.000 í 500.000.

„Hinn nýi Seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, viðraði nýverið í fjölmiðlum þá skoðun sína að virkari þátttaka Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undanfarin ár hefði verið heppileg, og að skynsamlegt gæti verið fyrir bankann að beita gjaldeyrisforðanum sem eins konar sveiflujafnara fyrir gengi krónu með umfangsmiklum gjaldeyriskaupum á hágengistímum og tilsvarandi sölu þegar gengið stæði veikt," segir í Morgunkorninu.

„Már var einnig aðalhagfræðingur bankans þegar krónunni var fleytt á vordögum árið 2001, en í kjölfarið beitti Seðlabankinn inngripum í töluverðum mæli til að stemma stigu gegn hraðri veikingu krónu það ár."

Ennfremur segir í Morgunkorninu að krónan hefur sótt talsvert í sig veðrið frá opnun gjaldeyrismarkaðar í gær. Alls nemur styrking hennar á tímabilinu þremur prósentustigum þegar þetta er ritað og hefur veiking undanfarinna vikna nú að fullu gengið til baka.

Evran kostar nú 180 kr. og Bandaríkjadollar ríflega 125 kr. á millibankamarkaði með gjaldeyri. Til samanburðar kostaði evran 184,3 kr. og dollarinn 129,3 kr. við lokun markaða á miðvikudag. Seðlabankinn gaf tóninn bæði í gær og í morgun með inngripum á markaði en líklegt er að frekari gjaldeyrissala á markaði eigi einnig þátt í svo ríflegri styrkingu krónunnar.

Aflandsgengi evru gagnvart krónu hefur þróast með talsvert öðrum hætti undanfarnar vikur en raunin hefur verið hér innanlands. Þannig lækkaði gengi evru á aflandsmarkaði eftir miðjan ágústmánuð úr 220 kr. í 212,5 krónur á sama tíma og gengið á millibankamarkaði hækkaði úr 181 kr. í 184 kr., ef marka má miðlunarkerfi Reuters. Með því minnkaði munur hérlends gengis og aflandsgengis úr 22% í 15,5% á tímabilinu.

Ekki verður hins vegar séð að viðskipti hafi átt sér stað í kerfi Reuters frá því styrkingarhrina krónu hófst hér á landi í gærmorgun og hefur munur innlends gengis og aflandsgengis aukist að nýju miðað við það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×