Viðskipti innlent

Eva Joly: Fyrstu málaferlin í árslok 2010

Eva Joly segir ólíklegt að fyrstu málaferlin í kjölfar rannsókna sérstaks saksóknara á bankahruninu muni líta dagsins ljós fyrr en í árslok 2010. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun blaðsins Financial Times um Ólaf Hauksson sérstakann saksóknara í bankahrunsmálum.

Eva Joly, sem er ráðgjafi Ólafs í rannsókninni, segir í blaðinu að rannsóknin í heild muni taka ein fimm ár. Hún ber Ólafi vel söguna og segir hann mjög duglegan og mjög heiðarlegan. „Með slíka hæfileika getur þú lært," segir Joly.

Sjálfur hvetur Ólafur fólk til að vera þolinmótt gagnvart rannsókninni. „Í upphafi ákváðum við að fá heildarmynd yfir hvað gerðist og koma staðreyndunum á hreint áður en við fórum að rannsaka einstök mál," segir Ólafur. „Við höfum nokkrar útlínur á hreinu en það er of snemmt að segja að við höfum heildarmyndina á hreinu."

Fram kemur í Financial Times að margir séu óvissir um að rannsóknin gangi upp. Það er Ólafur hinsvegar ekki. „Ég er fullur sjálfstrausts," segir Ólafur. „Ég finn að ég eflist á hverjum degi sem líður."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×