Viðskipti innlent

Landsbankinn: Engin vandræði með greiðslur frá Ástralíu

"Á vísi.is birtist í dag frétt um að ekki gangi að millifæra fé frá tilteknum áströlskum bönkum til Landsbankans. Þetta er ekki reynsla bankans."

Þetta segir í athugasemd sem visir.is hefur borist frá Landsbankanum. Þar segir ennfremur: "Landsbankinn hefur til þessa tekið á móti greiðslum frá Ástralíu án þess að nokkuð hafi í skorist, meðal annars frá þeim bönkum sem nefndir eru í fréttinni. Síðast barst færsla frá þeim í gær, 26. nóvember.

Á því tiltekna atviki sem visir.is byggir frétt sína, hljóta því að vera aðrar skýringar en þær að ástralskir bankar séu hættir að millifæra fé til Landsbankans og annarra íslenskra banka jafnvel.

Visir.is hefur nú í tvígang síðastliðna daga birt fréttir þar sem því er haldið fram að á sambandi Landsbankans við útlönd séu hnökrar sem valdi því að ekki sé hægt að millifæra til hans fé. Hvorug þeirra frétta hafa reynst nægjanlega traustar. Landsbankinn er boðinn og búinn að aðstoða blaðamenn visis.is í málum sem þessum, leiti þeir eftir því."

Ath. ritstjórnar:

Það að fréttir visir.is um erfiðleika fólks við að millifæra fé erlendis frá til Landsbankans séu ekki "nógu traustar" vísar vefsíðan til föðurhúsa. Í báðum tilvikum var um að ræða heiðarlegt og grandvart fólk sem greindi frá vandræðum sínum við að koma fé sínu frá útlöndum til Landsbankans. Það eina sem ekki er traust hér virðist vera erlend greiðslumiðlun til Landsbankans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×