Skoðun

Er þörf fyrir sparisjóði?

Á undanförnum mánuðum hefur viðhorf okkar til margra hluta tekið breytingum en þó hefur bankakerfið komið mest á óvart og valdið tjóni sem vart verður metið.

Margt hefur verið rætt og ritað um orsakir bankahrunsins en niðurstaða umræðunnar gæti í stuttu máli verið eftirfarandi:

Græðgi mannskepnunnar eru lítil takmörk sett og margir ganga ótrúlega langt í að nýta stöðu sína til að skara eld að eigin köku.

Mikið vill meira og því stærri sem fjármálafyrirtæki verða því minni er þjónustulund við þá smærri (útrás meginmarkmið?).

Þrátt fyrir góð áform um annað leiðir rekstur í hlutafélagaformi jafnan til að megineignarhald og völd færast á fáar hendur.

Hyggin þjóð lærir af reynslunni og því hlýtur eignarhald fjármálafyrirtækja, stjórnun þeirra og starfsvettvangur að taka breytingum.

Rökrétt virðist að þær breytingar feli m.a. í sé eftirfarandi:

Verulegar takmarkanir á eignaraðild og völdum (dreifð ábyrgð).

Hagkvæmni í rekstri og þjónusta við fólk og atvinnulíf í nærumhverfi markmið fremur en ágóði til eigenda og starfsfólks.

Stjórnun og ákvarðanataka sem næst viðskiptavinum.

Þau fjármálafyrirtæki sem best uppfylla ofangreind skilyrði eru án efa svæðisbundnir sparisjóðir, enda virðist sem æ fleiri geri sér grein fyrir að sparisjóðirnir séu valkostur í uppbyggingu bankaþjónustu til framtíðar að uppfylltum ákveðnum forsendum.

Eigi sparisjóðir að verða virk fjöldahreyfing fólksins á hverju svæði þarf lagarammi þeirra að tryggja að þeir séu opnir fyrir smáum og stórum stofnfjáreigendum sem vilja taka þátt. Skýrt þarf einnig að vera að stofnfjáreigendur eigi aðeins tilkall til hæfilegrar ávöxtunar stofnfjár og skilgreint hámark á atkvæðisrétti hvers stofnfjáreiganda. Þá þurfa markmið þeirra um þjónustu í heimabyggð að vera skýr jafnt í orði sem á borði. Þegar þrengir að er jafnan bent á að þeir sem vilja breyta (banka)heiminum skuli byrja á sjálfum sér. Án efa eru flestir sammála um að með lögum, reglugerðaflóði og hvers kyns tilskipunum megi draga úr líkum á bankahruni á komandi árum með ærnum kostnaði. En bankaheiminum má einnig breyta með því að gera eflingu sparisjóða sem byggja á upphaflegri hugmyndafræði þeirra að raunhæfum valkosti fólksins, ekki síst á landsbyggðinni.

Efling sparisjóðanna gæti jafnframt verið viðbrögð fólksins við ógnvænlegum hraða á flutningi starfa og valda til höfuðborgarsvæðisins.

Höfum þó í huga að sparisjóðir eflast ekki af sjálfu sér, til þess þarf breiðan öflugan hóp heimamanna á hverju svæði og stuðning löggjafar- og framkvæmdavalds.

Höfundur er stjórnarformaður Sparisjóðs Suður-Þingeyinga.




Skoðun

Sjá meira


×