Viðskipti innlent

Vöruinnflutningur 44% minni en á sama tíma í fyrra

Vöruinnflutningur var 44% minni að magni til á fyrstu sjö mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma skrapp vöruútflutningur saman um tæp 4%. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan sendi frá sér í morgun.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að samdráttur innflutnings var sérstaklega krappur í ýmsum vöruflokkum sem endurspegla þá neyslu sem auðveldast er að skera við nögl þegar skóinn kreppir hjá heimilum. Til að mynda dróst innflutningur einkabifreiða saman um 78% á tímabilinu að magni til, innflutningur á varanlegum neysluvörum á borð við heimilistæki og húsbúnað skrapp saman um 63% og nærri helmingi minna var flutt inn af hálfvaranlegum neysluvörum á borð við fatnað frá áramótum til júlíloka en á sama tíma í fyrra.

 

Innflutningur mat- og drykkjarvara minnkaði hins vegar um 23% á tímabilinu og bensíninnflutningur dróst aðeins saman um 6% að magni til. Samdráttur í innflutningi fjárfestingarvara var aftur á móti ríflega 70% á sama tíma.



Samdráttur útflutnings á ofangreindu tímabili skrifast fyrst og fremst á óreglulega liði á borð við skip og flugvélar. Almennur vöruútflutningur, að þessum liðum slepptum, jókst þannig um 5,6% á tímabilinu. Sá vöxtur átti sér fyrst og fremst rót í 11% magnaukningu á útflutningi afurða stóriðju, en útflutningur sjávarafurða stóð í stað í magni mælt á fyrstu sjö mánuðum ársins, miðað við sama tíma í fyrra.

 

Óhagstæð verðþróun á erlendum mörkuðum varð hins vegar til þess að krónutalan sem stóriðjan skilaði í vöruútflutningi var nánast sú sama á þessu tímabili í ár og í fyrra, þrátt fyrir aukið útflutt magn og mikið fall krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

 

Sundurliðun Hagstofunnar á vöruskiptunum dregur þó upp nokkuð aðra mynd af þróuninni. Til að mynda hefur fall krónunnar ekki enn skilað okkur aukningu í vöruútflutningi, enda er tæpast unnt að auka framleiðslu okkar helstu útflutningsvara, sjávarafurða og áls, næsta kastið hvað sem líður gengi krónu. Þá skrifast samdráttur í innflutningi að verulegu leyti á lok stóriðjuframkvæmda á síðasta ári og mikinn niðurskurð heimilanna á þeirri neyslu sem slá má á frest.

 

Fall krónu styrkir þó verulega samkeppnisstöðu þeirra innlendu framleiðslugreina sem keppa við innfluttar vörur, til að mynda matvöruframleiðslu, þótt slík áhrif séu minni en ella sakir þess að í litlu hagkerfi eins og því íslenska er hlutur slíkra samkeppnisgreina minni en í stærri hagkerfum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×