Viðskipti innlent

VBS tapar máli gegn Kevin Stanford og Kcaj

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag athafnamanninn Kevin Stanford og fjárfestingasjóðinn Kcaj LLP af kröfu VBS fjárfestingabanka sem hljóðaði samtals upp á fimm milljónir punda og aldrei hefur verið greitt til baka.

Undanfari málsins er sá að VBS lánaði Ghost fimm milljónir punda eða tæplega milljarð íslenskra króna. Ghost, sem er nú í gjaldþrotameðferð, var í eigu Ghost Holding sem aftur var að stærstum hluta í eigu Kevins Stanford og Kcaj LLP. Málið snérist um túlkun á lánasamningi Ghost en þar skrifuðu Stanford og Kcaj undir og vildi bankinn meina að með því hefðu þeir gengist í sjálfskuldarábyrgðir.

Dómari komst hinsvegar að því að undirritun samningsins feli ekki annað í sér en að þeir samþykki hann eins og hann liggur fyrir, þar á meðal að með orðinu ábyrgð sé átt við sjálfskuldarábyrgð af hálfu ábyrgðaraðila, sbr. 1. gr. samningsins. „Í því felst ekki að stefndu hafi tekist á hendur slíka ábyrgð," segir dómarinn.

Þá er því bætt við að ekkert hafi komið fram í málinu sem styðji það að í framhaldi af gerðum samningi hafi komist á „skuldbindandi samningur með stefnanda og stefndu um að stefndu tækjust á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld Ghost Ltd. svo sem stefnandi heldur fram."

Því ákvað dómari að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×