Erlent

Tyson handtekinn enn á ný

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mike Tyson.
Mike Tyson.

Hnefaleikameistarinn fyrrverandi, Mike Tyson, var handtekinn á flugvellinum í Los Angeles í gær eftir að til átaka kom milli hans og ljósmyndara.

Lögregla hefur ekki getað greint fullkomlega frá atburðarásinni enn sem komið er þar sem óljóst er hvað gerðist nákvæmlega. Svo virðist þó sem ljósmyndarinn hafi byrjað að mynda hnefaleikakappann og því næst slegið til hans, að því er virðist til að ögra honum. Tyson sló manninn þá niður og reyndi svo að fjarlægja filmuna úr myndavél hans. Lögregla handtók Tyson og ljósmyndarann og mega þeir báðir eiga von á ákæru fyrir athæfið.

Mikið er um að svonefndir paparazzi-ljósmyndarar hangi á flugvellinum í Los Angeles í von um að ná myndum af leikurum og öðru frægu fólki sem þangað leggur leið sína. Hugtakið paparazzi, sem notað er um þessa stétt ljósmyndara, er upphaflega komið úr kvikmynd Federico Fellini, La dolce vita frá 1960. Í henni lék Walter Santesso blaðaljósmyndara að nafni Paparazzo en nafnið þýðir moskítófluga og festist síðar við þennan sérstaka hóp ljósmyndara vegna starfs þeirra en þeir flykkjast að stjörnunum líkt og flugur.

Tyson hefur áður komið við sögu lögreglu vegna ofbeldis og frægt varð atvikið þegar hann beit stykki af eyra Evanders Holyfield í hnefaleikaviðureign árið 1997. Einnig hlaut hann þriggja ára fangelsisdóm fyrir nauðgun árið 1992. Tyson hætti hnefaleikakeppni árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×