Viðskipti innlent

Krafðir um samtals 3 milljarða króna vegna söluréttarsamninga

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Hreiðar Már, Sigurður Einarsson, Bjarni Ármannsson og Lárus Welding eru meðal tuttugu og átta stjórnenda Kaupþings og Glitnis sem skattayfirvöld krefja um þrjá milljarða króna í tengslum við endurálagningu Ríkisskattstjóra vegna söluréttarsamninga.

Söluréttarsamningar virkuðu þannig að starfsmönnum gafst færi á að kaupa hlutabréf með söluréttartryggingu fyrirtækisins. Ef bréfin hækkuðu í verði gátu þeir valið að eiga bréfin eða selja þau en ef þau lækkuðu gátu þeir gengið frá samningnum sér að kostnaðarlausu. Mörg fyrirtæki sem skráð voru á markað gerðu slíka samninga, t.a.m. Glitnir, Kaupþing, Nýherji og Marel. Stjórnendurnir greiddu 10% fjármagnstekjuskatt þegar bréfin voru seld en greiddu ekkert vegna söluréttarins. Þessu vill Ríkisskattstjóri breyta þannig að stjórnendurnir greiði 35% skatt í stað 10. Þá getur einnig bæst við 25% álag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Ríkisskattstjóri nú sent bréf til um 10 stjórnenda Kaupþings og Glitnis um endurákvörðun opinberra gjalda vegna samninganna. Alls munu tuttugu og átta stjórnendur Glitnis og Kaupþings fá slíkt bréf. Restin af bréfunum verða send út á næstu vikum. Meðal þeirra eru fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson og fyrrverandi forstjórar Glitnis þeir Bjarni Ármansson og Lárus Welding. Í heildina nemur endurálagning um þremur milljörðum króna en hæstu gjöldin nema um 200 milljónum. Enn er unnið að því að greina söluréttarsamninga í öðrum fyrirtækjum svo það má búast við að stjórnendur annarra fyrirtækja muni innan tíðar fá bréf frá Ríkisskattstjóra inn um lúguna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×