Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Þjóðarnauðsyn að skipta krónunni út

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Sú fáránlega staða er nú komin upp á landinu að það er orðið ólöglegt að nota íslenskar krónur í viðskiptum við útlendinga. Íslenska krónan er sumsé orðin svo ónýtur gjaldmiðill að það er ekki einu sinni hægt að nota hana í heimalandinu lengur.

Bannið við notkun á krónunni er ákvörðun alþingis og nær að vísu aðeins til þröngs hóps útflytjenda, það er sjávarútvegsfyrirtækja, og er afleiðing þess að hjáleið myndaðist framhjá gjaldeyrishöftunum. Hjáleið menn töldu að hefði leitt til mikillar veikingar krónunnar á síðustu tveimur vikum.

Með breytingu á gjaldeyrishöftunum er girt fyrir að útflytjendur geti fengið greitt fyrir vörur sínar innanlands með íslenskum krónum og kaupandinn geri á móti upp viðskiptin í erlendum gjaldmiðlum við annan aðila utan Íslands.

Gjaldeyrishöft og höft yfirleitt eru þess eðlis að menn reyna ætíð að komast í kringum þau. Og það er auðvelt að sjá fleiri hjáleiðir sem hægt verður að fara í stöðunni nú. Til dæmis þá að einhverjir eigendur krónu- eða ríkisbréfa fjárfesti einfaldlega í fiskverkun hérlendis. Kaupi svo fisk af sjálfstæðum útgerðarmönnum og selji utan. Væntanlega myndu þeir bjóða útgerðunum verð sem tæki mið af skráðu gengi krónunnar erlendis, það er 200 til 230 kr. fyrir evruna.

Þetta sýnir að það er orðin þjóðarnauðsyn að skipta krónunni út fyrir annan gjaldmiðil ef Ísland ætlar ekki að sigla inn í sömu stöðu og Norður Kórea er í, líkt og Lars Christensen yfirmaður greiningar Danske Bank benti á í frétt hér á Stöð 2 og Visir.is í gærkvöldi.

Krónan er hvergi gjaldgeng í heiminum nema á Íslandi, og varla það lengur, á sama tíma og landið sárvantar erlent traust og fjármagn til að aðstoða við endurreisn hagkerfisins. Nærtækast er að ganga í Evrópubandalagið og taka upp evruna.

Eins og staðan er má segja að engar líkur séu á að krónan rétti úr kútnum á þessu ári eða jafnvel næstu tveimur, þrátt fyrir mjög hagstæðan vöruskiptajöfnuð þessa stundina. Nefnt hefur verið að vöruskiptajöfnuðurinn í mars nam rúmlega 8 milljörðum kr. Undir eðlilegum kringumstæðum ætti slíkt að styrkja gengi krónunnar. En upphæðin samsvarar nándarnærri þeirri upphæð sem ríkissjóður þurfti að greiða erlendum fjárfestum í vexti af ríkisbréfum í mánuðinum. Upphæð sem rauk beint út úr landinu í formi gjaldeyris.

Menn urðu þó ofurbjartsýnir í gær þegar krónan styrktist um rúm 2% eftir að fyrrgreindar breytingar voru gerðar á gjaldeyrishöftunum. Sú bjartsýni dofnaði þó mjög er í ljós kom að á bakvið styrkinguna voru tvö viðskipti á gjaldeyrismarkaði upp á 160 milljónir kr. Fyrir tveimur árum eða svo var þessi upphæð veltan á markaðinum á innan við 15 mínútum á góðum degi. Sömu sögu er að segja í dag. Krónan styrkist en viðskiptin eru nær engin.

Annað sem kemur í veg fyrir að krónan styrkist er að það litla sem skilar sér inn af gjaldeyri til landsins er skilaskylt en ekki söluskylt. Þeir sem eiga gjaldeyririnn liggja því á honum eins og ormur á gulli enda ekkert í kortunum til skemmri eða lengri tíma en að krónan muni veikjast áfram með tilheyrandi gengishagnaði fyrir viðkomandi.

Útflutningur á sjávarafurðum og áli áttu að vera þeir hestar sem draga áttu krónuvagninn upp úr forinni. Hvorugt hefur burði til þessa í náinni framtíð. Fiskverð fer lækkandi á mörkuðum vegna kreppunnar og það breytist ekki fyrr en henni fer að létta. Hið sama gildir um álið. Verð á því er í lágmarki og mun ekki hækka fyrir en bíla-, flugvéla-, og byggingariðnaðurinn tekur við sér aftur á alþjóðavettvangi. Miðað við fréttir dagsins er ár og dagur þar til slíkt gerist.

Það skynsamlegasta sem hægt er að gera í stöðunni er að taka upp aðildarviðræður við ESB. Og reyna að fá einhverskonar tengingu við evruna meðan á þeim viðræðum stendur í gegnum EES-samninginn.

P.S: Það skal tekið fram að undirritaður hefur ekki verið fylgjandi aðild að ESB hingað til enda genatískur Framsóknarmaður. Nú stendur valið hinsvegar um að fá traustan gjaldmiðil í stað ónýtrar krónu. Og losna þar með við að landið endi eins og Norður-Kórea. Með þeim hugsanlegu afleiðingum að éta þyrfti fisk og lambakjöt í öll mál og einu klæðin sem hægt yrði að kaupa í verslunum væru gamla „föðurlandið" og sauðskinnsskór.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×