Viðskipti innlent

Saga Capital skipt í tvennt

Staða Saga Capital er orðin afar viðráðanleg, segir forstjóri bankans.
Staða Saga Capital er orðin afar viðráðanleg, segir forstjóri bankans.

Breið samstaða var um endurskipulagningu fjárfestingarbankans Saga Capital á hluthafafundi bankans á föstudag.

Á meðal breytinganna er að íþyngjandi eignahlutir í fjármálafyrirtækjum voru færðir í sérstakt eignarhaldsfélag og fjörutíu prósent útlána færð á varúðarreikning. Þá er þar nægt fjármagn til að standa straum af kostnaði á tæplega tuttugu milljarða króna láni frá ríkissjóði í vor.

Saga Capital stendur nú uppi með tiltölulega lítinn efnahagsreikning; sex milljarða í ríkisskuldabréfum og bókfært verð lánasafns upp á 3,2 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall er 41 prósent. Hluthafar munu bæði eiga hlut í eignarhaldsfélaginu og Saga Capital.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, segir stöðu bankans mjög sterka enda hafi breytingarnar dregið úr rekstraráhættu hans og gert honum kleift að takast á við endurreisnina af fullum krafti.

Hann sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir mánuði uppstokkun á rekstri bankans nauðsynlega, meðal annars vegna óinnleiddra reglna Evrópu­sambandsins um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Saga Capital bar að núvirða vaxtaávinning af tæpum helmingi ríkislánsins og var það áður fært sem tekjur í ársreikningi. Slíkt er ekki leyfilegt samkvæmt nýju reglunum.- jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×