Viðskipti innlent

Töluverð þörf á endurnýjun

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Segja framtíð bjarta Thomas Schmidt-Mumm, aðstoðarforstjóri yfir Norður- og Mið-Evrópu, og Andrew Gordon, yfirmaður markaðsrannsókna hjá Airbus, kynntu tuttugu ára spá Airbus um þróun í flugiðnaði, auk stöðu og horfa hjá félaginu sjálfu, á blaðamannafundi í gær.
Segja framtíð bjarta Thomas Schmidt-Mumm, aðstoðarforstjóri yfir Norður- og Mið-Evrópu, og Andrew Gordon, yfirmaður markaðsrannsókna hjá Airbus, kynntu tuttugu ára spá Airbus um þróun í flugiðnaði, auk stöðu og horfa hjá félaginu sjálfu, á blaðamannafundi í gær. Fréttablaðið/Pjetur
Flugfélög á Norðurlöndunum þurfa 404 nýjar farþegaflugvélar með yfir 100 sæti næstu tuttugu árin, frá 2009 til 2028, samkvæmt nýjustu markaðsspá flugvélaframleiðandans Airbus. Fulltrúar félagsins kynntu spána í fyrsta sinn hér á landi í gær.

Þörf fyrir nýjar vélar er að stærstum hluta til komin vegna endurnýjunar á eldri vélum sem verður skipt út fyrir vistvænni flugvélar. Þá spáir Airbus áframhaldandi vexti í flugiðnaði, en flugumferð hefur til þessa tvöfaldast á hverju fimmtán ára tímabili.

„Og sú þróun heldur áfram,“ segir Andrew Gordon, yfirmaður markaðsrannsókna hjá Airbus. Hann bendir jafnframt á að töluverður uppgangur hafi verið í flugiðnaði á Norðurlöndum síðustu ár, en á þessu ári sé flugumferð til og frá Norðurlöndum 35 prósentum meiri en árið 2000.

Spá Airbus nær til heimsins alls, en samkvæmt henni mun uppgangur í Asíu, þar sem hvað mestum hagvexti er spáð, verða til þess að breyta nokkuð goggunarröð þeirra svæða þar sem mest er flogið. Núna eru Bandaríkin í fyrsta sæti með 31 prósent flugumferðar, Evrópa í öðru sæti með 28 prósent og Asía í þriðja með 26 prósent.

Árið 2028 telur Airbus hins vegar að Asía verði komin í fyrsta sætið með 33 prósent, Evrópa haldi öðru sætinu með 26 prósent og Bandaríkin falli í þriðja með tuttugu prósenta hlut.

„Þótt tímar séu erfiðir um þessar mundir störfum við í vaxtargeira,“ áréttar Thomas Schmidt-Mumm, aðstoðarforstjóri Airbus í Norður- og Mið-Evrópu. Hann notar tækifærið til funda með fulltrúum flugfélaga hér og kveður Airbus í reglulegu sambandi við þau, þótt Boeing sé ráðandi í markaðshlutdeild hér á landi.

Airbus ætlar sér væna sneið spáðrar aukningar, en Andrew Gordon segir stefnt á helmings­hlutdeild. Núna er félagið með 24 prósenta markaðshlutdeild á Norður­löndum. Árið 1990 var hlutur félagsins tvö prósent.

Í markaðsspá Airbus kemur fram að á spátímabilinu fjölgi farþegaflugvélum fyrir fleiri en hundrað farþega á Norðurlöndum um meira en fimmtíu prósent, fari úr 319 upp í 488 vélar. Af þeim sem þegar eru í notkun verði 235 teknar úr umferð, 75 verði nýttar annars staðar og níu verði áfram í notkun.

Heildarmarkaðsvirði endurnýjunar og breytinga yfir í vistvænni vélar sem taka yfir 100 farþega er áætlað 38,7 milljarðar Bandaríkjadala, eða rúmlega 4.720 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×