Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri: Bankakerfinu ekki hleypt í áhættusama starfsemi

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að núverandi bankakerfi landsins verði ekki leyft að fara í mjög áhættusama starfsemi út fyrir landamærin eins og gömlu bankarnir gerðu. „Við höfum enga burði til að verja slíkt og við eigum ekki að verja okkar fjármunum í það," segir Már.

Þetta kemur fram í viðtali Viðskiptablaðsins við Má Guðmundsson og birt er í blaðinu í dag. Fram kemur í máli seðlabankastjóra að hann geri ráð fyrir því að bankakerfið hér á landi verði háð meiri takmörkunum en önnur bankakerfi í Evrópu. Það stafi fyrst og fremst af því að hér sé mikil áhætta út af lítilli mynt í litlu hagkerfi sem ekki sé hægt að horfa framhjá.

Hvað varðar möguleikann á að hleypa bönkunum út fyrir landamærin segir Már: „Ef það er vilji til þess þá þurfum við áður að vera hluti af evrusvæðinu. Það er lykilatriði til að eiga aðgang að Seðlabanka Evrópu sem bakhjarli. Annars verðum við að sætta okkur við að það eru takmarkanir á því sem bankarnir geta gert."

Hvað varðar stjórn á hinu nýja fjármálakerfi telur Már að bankarnir þurfi fyrst um sinn að halda tiltölulega háu eiginfjárhlutfalli.

„Síðan má í framhaldinu beita kröfum um eiginfjárhlutfall í sveiflujöfnunarskyni, þegar útlánaþennslan er mikil þá bara hækkum við það. Það þarf jafnframt að hafa betra regluverk varðandi laust fé fjármálastofnanna. Þetta þarf allt að spila betur saman.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×